Á dögunum barst Síldarminjasafni Íslands á Siglufirði skemmtilegur tölvupóstur frá konu sem búsett er í bænum South Queensferry í Skotlandi.

Fyrir liðlega tveimur árum var þar afhjúpað stórt mósaíkverk, innblásið af helstu kennileitum staðarins. Verkið er staðsett utandyra og er þrettán metra langt og tveggja metra hátt. Íbúar í South Queensferry unnu að verkinu í sameiningu á tíu ára tímabili.

Elaine Ross var á göngu um svæðið og staldraði sérstaklega við mósaíkverkið til þess að rýna í smáatriði þess. Hún rak þá augun í orðin Siglufjörður og Iceland.

Þegar heim var komið leitaði hún upplýsinga um Siglufjörð á vefnum og komst að því að hér væri starfrækt sjóminjasafn. Hún sendi því safninu þessar skemmtilegu ljósmyndir af mósaíkverkinu.

Það er ljóst að Siglufjörður kemur víða við sögu segir á facebooksíðu Síldarminjasafnsins.

Myndir/af facebooksíðu Síldarminjasafnsins