Virkjunin við Skeiðsfoss fagnar 80 ára afmæli í ár, og í dag, sunnudag kl. 13 verður haldið upp á afmælið. Hún var upphaflega byggð af Siglufjarðarbæ til að anna rafmagnsþörf vegna síldarbræðslu í bænum, og er enn í fullri notkun – með miklum tæknibreytingum og sömu fjölskyldu við stjórnvölinn.

Sigtryggur Kristjánsson, vélstjóri og starfsmaður Orkusölunnar, stýrir virkjuninni í dag og býr á Skeiðsfossi ásamt eiginkonu sinni Katrínu Sigmundsdóttur, þremur börnum og tveimur hundum. Eldri sonurinn gengur í skóla á Hofsósi, sá yngri á Siglufirði og yngst er dóttir sem sækir leikskólann á Siglufirði.

Sigtryggur er fæddur og uppalinn á staðnum og sonur Kristjáns Sigtryggssonar, sem sinnti stöðvarstjórn þar í áratugi. Nafnahefðin er sterk – Sigtryggur og Kristján skiptast á milli margra ættliða í karlleggnum.

„Það er dásamlegt að búa með fjölskyldu hér,“ segir Sigtryggur, sem stendur vaktina í virkjuninni með aðstoð fjartengdra stýrikerfa, meðan Katrín starfar sem forstöðumaður hjá lífeyrisþjónustu Arion banka á Siglufirði og keyrir daglega milli staða.

Í upphafi þurfti þrjá stöðvarstjóra sem skiptu með sér vöktum og bjuggu þá þrjár fjölskyldur á Skeiðsfossi auk lausamanna þegar á þurfti að halda.

Tæknibreytingar og nýtt hlutverk virkjunar

Frá fyrstu dögum handstýringar hefur virkjunin gengið í gegnum tvær stærri endurnýjanir á stýribúnaði:

  • Fyrst um 1993–97, þegar tölvutækni var innleidd.
  • Síðan 2019, eftir bilun, þegar nánast öll stýritæki voru endurnýjuð með fjartengingum og nútíma sjálfvirkni.

Í dag stjórna tölvur nær öllu, en húsið og túrbínurnar eru upprunalegar. Eitt upprunalegt vatnshjól er geymt til minningar um liðna tíma.

Kraftur fossins og sveigjanleiki í nýtingu

Skeiðsfoss er eina virkjun Orkusölunnar sem getur geymt allt að 30 gígalítra af vatni, ólíkt rennslisvirkjunum sem eru háðar náttúrulegu flæði.

„Við nýtum vatnið skynsamlega og erum oft kölluð út til að mæta hámarkstoppum á vetrum. Þá getum við stýrt afköstum nákvæmlega og geymt vatn þegar þarf,“ segir Sigtryggur.

Virkjunin samanstendur af tveimur stöðvarhúsum:

  • Efri virkjunin (frá 1944): 2 vélar, samtals 3,7 MW
  • Neðri virkjunin (frá 1974): 1 vél, 1,7 MW

Samtalsafköst eru um 5 MW. Rafalar snúast um 500 snúninga á mínútu og gefa frá sér 6,6 kV (6.600 volt) sem eftir spennubreytingu fer með 22 kV (22.000 volt) spennu út á dreifikerfið.

Jarðstrengur lagður

Raflínan frá Skeiðsfossi niður að Ketilási var lögð í jörð fyrir fjórum árum, og nú nær jarðstrengurinn alla leið til Siglufjarðar – að undanskildu stuttu loftlínubili yfir jarðsigið við Hraun, þar sem ekki hefur verið hægt að grafa. Þetta hefur aukið öryggi, minnkað viðhald og bætt útlit umhverfisins.

Frá síldarbræðslu til nútímaorku

Upphaf virkjunarinnar má rekja til vaxandi þarfar fyrir rafmagn í síldarbænum. Menn fundu foss í Stíflu, keyptu jarðir og hófu framkvæmdir. Línur voru strengdar yfir Siglufjarðarskarð með sérlega sverum stálvírum, sem þóttu sterkari en ál eða kopar og nauðsynlegir vegna þess hve langt var á milli mastra.

Sumir náttúruunnendur mótmæltu á sínum tíma – jafnvel ortu ljóð – en aðrir fögnuðu framkvæmdunum og töldu aðeins mýrlendi og votlendi hafa farið undir vatn.

Fossinn

Þitt kjörorð var frelsi með kingi í hljóðum
kraftur og algleymi fylgdi þeim ljóðum
töfrandi litskrýddum ljósperlum stráði
á landi sem augað og sálin mín þráði.
tröllaukni foss þú varst tekinn og bundinn,
taminn og vilji þinn léttvægur fundinn.

Nú hefur tæknin tekið þig höndum
taminn og reyrðan vélanna böndum
allur þinn máttur til mannanna þarfa
metinn og veginn, nóg er að starfa.
Í skiptum á litskrúð og ljóðanna glaumi,
Lýðurinn fagnar nú raforkustraumi.

Herdís Þorsteinsdóttir (f. 1893 – d. 1968)
Vík í Haganesvík

Áframhaldandi þróun

Í dag er ein fjölskylda búsett á Skeiðsfossi – fjölskylda Sigtryggs og Katrínar. Þau standa vörð um sögu, tækni og nýtingu náttúruauðlinda með virðingu og ástundun.

Til hamingju með 80 árin Skeiðsfossvirkjun og allir aðstandendur fyrr og nú.

Myndir/Úr einkasafni Sigtryggs og Katrínar