Síðasta sunnudag kom skagfirska ljóðskáldið og tónlistarmaðurinn Gillon, Gísli Þór Ólafsson, fram á Ljóðasetrinu. Hann flutti nokkur af ljóðum sínum og einnig lög sem hann hefur samið við eigin ljóð sem og ljóð eftir Geirlaug Magnússon, en Gísli var nemandi hans á Sauðárkróki. Kom fram í máli Gísla að Geirlaugur hafi haft töluverð áhrif á hann og m.a. gert það að verkum að hann fór að yrkja af meiri alvöru en áður.
Gísli er meðlimur í hljómsveitinni Contalgen Funeral, sem hefur komið fram víða um land, m.a. á tónlistarhátíðunum Bræðslunni, Icelandic Airwaves og Þjóðlagahátíð á Siglufirði.
Á annan tug mætti til að hlýða á og gerði góðan róm að því sem Gísli hafði fram að færa. Skáldið afhenti Ljóðasetrinu eintök af ljóðabókum sínum við þetta tilefni.
Frétt og myndir: Ljóðasetur Íslands