Í sumar verður hafist handa við endurbætur á skólalóð Dalvíkurskóla. Lokið var við að að hanna skólalóðina út frá hugmyndum nemenda og starfsfólks sl. vor og stefnt er að því að framkvæmdum ljúki á næstu þrem árum.

Í fyrsta áfanga verður lagður göngustígur frá nýju sleppisvæði við Mímsveg að skólanum, nýr kastali settur upp og undirlag á leiksvæði norðan við skólann endurnýjað. Auk þess verður keyptur ærslabelgur (merktur gulur á myndinni) sem staðstettur verður norðan við gervigrasvöllinn. Búið er að kaupa tvo pannavelli sem eru litlir færanlegir fótboltavellir með lágum böttum og verður þeim komið fyrir við skólann.

Í öðrum áfanga er m.a. gert ráð fyrir að endurbæta malbiksvellina, fótbolta- og körfuboltavöllinn auk minni leiktækja og í þriðja áfanga verður hugað að útikennslusvæði við skólann og gróðri.

Á teikningunni má sjá hvernig skólalóðin mun líta út eftir rúm tvö ár þegar framkvæmdum lýkur. Heildarkostnaður við hönnun og frágang lóðar er áætlaður um 43 milljónir.

 

Af dalvikurbyggd.is