Starfshópur fjármála- og efnahagsráðherra um aðgerðir til að sporna við misnotkun skattkerfisins m.a. með útgáfu tilhæfulausra sölureikninga hefur skilað skýrslu með tillögum til úrbóta.

Starfshópurinn var skipaður á síðasta ári. Verkefni hans fólust í að afla upplýsinga um tilhæfulausa sölureikninga, hvaða rekstrarform virðast helst notuð við útgáfu slíkra reikninga og að hvaða marki reiðufé er notað við kerfisbundna misnotkun. Var hópnum falið að móta raunhæfar tillögur til að bregðast við fjölgun brota þar sem skattkerfið, og þá sérstaklega virðisaukaskattkerfið, er misnotað.

Hluta tillagna starfshópsins er að finna í frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra til Alþingis um breytingu á lögum um virðisaukaskatt o.fl. Þar er lagt til að ríkisskattstjóra verði veitt aukin úrræði til að bæta skil og eftirlit með þeim sem skráðir eru á virðisaukaskattskrá. Aðrar tillögur og niðurstöður hópsins má lesa í meðfylgjandi skýrslu.

Skýrsla starfshóps:

Útgáfa tilhæfulausra sölureikninga: Eðli háttseminnar og mögulegt umfang – tillögur til aðgerða  

Mynd/Golli