Á vefsíðu Húnaþings vestra segir frá því að á dögunum sótti Kristófer Dagur Sigurjónsson, slökkviliðsmaður hjá Brunavörnum Húnaþings vestra, námskeið í björgunartækni hjá fyrirtækinu Holmatro í Hollandi ásamt átta öðrum íslenskum slökkviliðsmönnum.
Hópurinn hélt til úthverfis Amsterdam þar sem verksmiðjur Holmatro eru staðsettar og dvaldi þar í tvo daga til að kynna sér það nýjasta í björgunartækni fyrir slökkvilið.
Námskeiðið var mjög vel heppnað, bæði bóklegt og verklegt, og kom Kristófer heim mun fróðari um allt það nýjasta sem kennt er í þessum fræðum í dag.
Holmatro er gríðarlega öflugt og stórt fyrirtæki sem hefur um árabil verið leiðandi í framleiðslu og sölu á björgunarbúnaði fyrir slökkvilið um allan heim, auk þess að sinna kennslu og þjálfun.
Starf slökkviliðsmannsins er afar fjölbreytt og því mikilvægt að æfa reglulega og sækja námskeið eða endurmenntun sem tengist starfinu.
Haldin var æfing í húsnæði slökkviliðsins þar sem Kristófer fór yfir allt það nýjasta með kollegum sínum.

