Spennandi hlutir að gerast ungu fólki til handa, í Húnaþingi vestra, þökk sé dr. Jessicu Aquino og samstarfsfólki.

Við tilkynnum með stolti að Húnaklúbburinn og Óríon hafa fengið Erasmus+ styrk vegna verkefnisins Leiðin að rótunum.

Ungmennaráðin í Húnaþingi vestra og í Pyhtää í Finnlandi munu vinna saman að því að hvetja æskuna til aukinnar lýðræðisþátttöku, til að taka meiri þátt í að móta samfélög sín og búa ungmenni undir samskipti við stjórnvöld og aðra menningarheima í alþjóðlegu umhverfi.

Verkefnið hlaut alls styrk upp á €137.000 (27.374.220 íslenskra króna) fyrir árin 2021 og 2022. 

Æskulýðsleiðtogar frá Húnaþingi vestra og Pyhtää munu funda með innlendum og alþjóðlegum stefnumótendum auk heimamanna, til að kanna hvernig ungmenni sem búa í sveitarfélögum á landsbyggðinni geta haft forystu í samfélagsþróunarverkefnum sem hafa bein áhrif á líf þeirra.

Húnaklúbburinn er náttúruskóli og -klúbbur ungmenna í Húnaþingi vestra sem stofnaður var árið 2016 með forgöngu dr. Jessicu Aquino.

Verkefni klúbbsins er að þróa staðbundna sjálfsmynd ungs fólks með umhverfisfræðslu í nærumhverfinu og auðvelda þannig framlag þeirra til sjálfbærrar þróunar samfélags síns. Til að fræðast frekar um Húnaklúbbinn heimsækið www.hunaklub.org.

Dr. Jessica Aquino er lektor við Háskólann á Hólumm og deildarstjóri ferðamáladeildar Selaseturs Íslands á Hvammstanga. Hún hefur næstum 20 ára reynslu af umhverfismenntun og hefur doktorsgráðu í samfélagsauðlindum og -þróun. Jessica hefur áhuga á samfélagslegum þátttökuverkefnum með áherslu á valdeflingu ungmenna og ábyrga umgengni við dýralíf.

Aðsend fréttatilkynning.