Formleg opnun samþættrar heimaþjónustu Húnaþings vestra og Heilbrigðisstofnunar Vesturlands (HVE) fór fram á síðasta vetrardag.
Um er að ræða sameiginlega aðstöðu fyrir starfsfólk heimahjúkrunar, heimastuðnings og dagþjónustu en vinna við samþættinguna hefur farið fram undir merkjum verkefnisins Gott að eldast undanfarna mánuði. Húnaþing vestra og HVE undirrituðu samning um verkefnið á haustdögum.
Þjónustan hefur fengið nafnið Snældan, heimaþjónusta. Nafnið hefur tvíþætta skírskotun. Annars vegar í Snælduklett ofan Kirkjuhvamms sem margir íbúar sveitarfélagsins þekkja en þangað liggur vinsæl gönguleið. Einnig vísar nafnið í snældu sem er fornt verkfæri notað til spinna þráð eða tvinna saman band.
Í þjónustunni tvinnast einmitt saman skyldir þættir þjónustu og umönnunar sem nú eru veittir á einum stað í stað tveggja áður. Með því er meðal annars lögð áhersla á bætta þjónustu við þjónustuþega og bætta nýtingu fjármuna.
Snældan heimaþjónusta er staðsett í eldri hluta sjúkrahússins og er aðgengi frá Spítalastíg, inngangur vestast.
Á mynd: Sesselja Kristín Eggertsdóttir og Henrike Wappler hafa leitt verkefnið Gott að eldast í Húnaþingi vestra fyrir hönd HVE og sveitarfélagsins. Þær taka hér við gjöf og árnaðaróskum frá sveitarfélaginu við opnunina.
Mynd/Húnaþing vestra