Það er ánægjulegt að fá líflegar umræður um hlunnindi sem eru í eigu bæjarins og greinilegt að hiti er í umræðunni. Þetta kætir undirritaðan mjög og sérstaklega í ljósi þess að höfundar fyrrgreindra greina hafa í tvígang fullyrt að þeir muni ekki leggja fleiri orð í belg en áfram halda þeir þó.

Það eru nokkur atriði sem undirritaður vill árétta. Hvergi skrifaði undirritaður staf um að menn væru að stunda skattsvik og þjófnað, en fyrst höfundar greinanna nefna þetta að fyrra bragði, væri þó áhugavert að skoða það betur. Skoðun höfunda greinanna á rituðu máli undirritaðs er algjörlega þeirra og verða þeir félagar að eiga það við sig sjálfa, en ekki er þó hægt að hafa skoðun á staðreyndum.

Nú hafa þessir áratugagömlu skúffusamningar komið í ljós, sem undirrituðum var ekki kunnugt um fyrr, en þó má deila um áreiðanleika áratuga gamalla, munnlegra samininga. Einnig má nefna að skv. sveitarstjórnarlögum má eigi semja til lengri tíma en þriggja ára um slík hlunnindi, þó með möguleika á framlengingu um eitt ár tvisvar. Ef svo er að skriflegir samningar séu í hendi fyrir dúntekju á þessum svæðum er auðvitað sjálfsagt að láta þann litla dún af hendi sem þar var tíndur af undirrituðum en þó er eitt sem vert er að nefna í því samhengi.

Eins og höfundar fyrrnefndrar greinar skrifa að þá hefur Ólafur Guðmundsson séð um varpið að Leirutanga s.l. 20 ár, eða þangað til árið 2020. Höfundar greinanna segja að þeir hafi farið á fund með fulltrúum bæjarins þann 28. ágúst s.l. Undirritaðan undrar hvers vegna sá aðili sem hirti dún á Leirutanga árið 2020 hafi ekki hitt bæjaryfirvöld í síðasta lagi í apríl áður en varpið byrjaði heldur síðsumars, enda verpir fuglinn snemma í maí og dúntekja um mánuði síðar. Er sanngjarnt að eignir bæjarins hafi gengið kaupum og sölum manna á milli án aðkomu bæjarins árið 2020? Var samningur til staðar við nýjan aðila er tók dún á Leirutanga árið 2020, munnlegur eða skriflegur? Ef undirritaður verður krafinn um að skila dúni sem aðrir hafa skriflega samninga um, væri ekki eðlilegt að sá sem tók dún á Leirutanga árið 2020 geri slíkt hið sama og skili þeim 15 kílóum sem hann þar hirti, þar sem enginn samningur var á milli hans og bæjarins að hann ætti að taka dún á því svæði?

Undirritaðan sárnar að sjá litla dúnbændur í Fjallabyggð selja æðardún bæjarsins langt undir markaðsverði, en sennilega er þar lítilli þekkingu þessara aðila af alþjóðamörkuðum æðardúns að kenna. Undirritaður leggur mikið upp úr því að gagnsæi sé til staðar og að hans kaupendur viti nákvæmlega hvar og hvenær okkar dúnn var tíndur, hvernig hann var þurrkaður, bakaður, krafsaður, fjaðratíndur, þveginn og metinn.
Lesendum til upplýsinga mátti fyrirtækið Icelandic Eider ehf. ekki bjóða í varpið á Leirutanga m.t.t. til þess verðs er fyrirtækið selur sinn dún til heildsölu á. Til að gæta jafnræðis þá var fyrirtækið skyldað til að lækka söluverð sitt um 40.000 kr. per kíló í umræddu útboði og er sú tala án virðisaukaskatts. Verðið á hvert kíló er þó mun hærra þegar um ræðir vörur sem fyrirtækið selur er innihalda æðardún. Til þess að aðrir smærri aðilar gætu tekið þátt var því miðað við söluverðið 190.000 kr. per kíló. Þrátt fyrir að fyrirtækið hafi neyðst til að lækka verðið sitt um 40.000 kr. per kíló, vann það útboðið með yfirburðum. Hagnaður Fjallabyggðar per. kíló er því 190.000 kr. þar sem allur okkar dúnn er seldur án milliliða. Heildsalar æðardúns á Íslandi hafa í áraraðir leynt dúnbændur því verði sem þeir fá fyrir dúninn og getur undirritaður fullvissað litlu dúnbændurna um að þar verði þeim af hundruðum þúsunda og er þetta t.a.m. ein þeirra fjölmörgu ástæða þess að undirritaður hóf æðarrækt.

Innan herbúða fyrirtækis undirritaðs er sameiginleg rúmlega 160 ára reynsla af umhirðu æðarvarps, vargeyðingu, dúntekju, dúnhreinsun, vöruframleiðslu úr æðardúni og sölu hans að baki. Þar ber einnig að nefna að undirritaður greiðir sérstaklega fyrir að láta eyða tófu og mink allt árið um kring, ásamt því að skjóta umtalsvert að veiðibjöllu og silfurmáf á Leirutanga. Þetta nýtist öðrum dúntekjumönnum í sveitarfélaginu án tilkostnaðar en það eru sjálfsagt aukaatriði í þeirra augum. Elstu rituðu heimildir um æðarvarp að Hraunum í Fljótum eru frá árinu 1860 og það varp blómstrar enn í dag og því enginn vafi að hér er kunnað vel til verka að, að ganga vel um náttúruna í sátt og samlyndi við dýr og menn. Það er því algjör fyrra að halda því fram að undirritaður teljist nýgræðingur og standi í stríði við heimamenn.

Undirritaður hefur talað sérstaklega um það hversu vel hafi verið staðið að uppbyggingu varps í bæjarlandi á Siglufirði og þar leikur enginn vafi á. Ákveðnir aðilar hafa þó verið að fara á mis við kjarna málsins. Það þarf að gæta sanngirni í úthlutun á eignum sveitarfélagsins og íbúa þess. Á Íslandi er frjáls markaður og síðast er að var gáð fellur Fjallabyggð einnig þar undir. Er sanngjarnt að einn greiði þriðjungshlut tekna er hljótast úr einu varpi í bæjarlandi til sveitarfélagsins en hinir ekkert? Hvers vegna fá þessir aðilar að ganga í hlunnindi í eigu allra íbúa sveitarfélagsins og hvers vegna fá ekki allir aðrir að gera slíkt hið sama? Ætti sveitarfélagið að úthluta öllum þeim sem vilja, skika til þess að koma upp æðarvarpi?

Að litlu æðarbændurnir vilji taka fyrirtækið út fyrir sviga vegna skráðs lögheimilis er klárt brot á jafnréttislögum, enda hvergi á það minnst í útboðinu á Leirutanga að skilyrði væri fyrir búsetu í Fjallabyggð. Skiptir þá kynhneigð, húðlitur, aldur eða fyrri störf einnig máli þegar um er að ræða útboð til dúntekju í Fjallabyggð?

Málið snýst aðeins um sanngirni og að allir spili í sömu deild. Icelandic Eider ehf. bar að lækka söluverð sitt fyrir fyrrnefnt útboð til að gæta sanngirni gagnvart þeim sem smærri eru og nú er boltinn hjá Bæjarstjórn Fjallabyggðar að gæta sanngirni í úthlutun æðarvarpa innan sveitarfélagsins og að allir þeir aðilar er hafa tekjur að æðardúntekju í bæjarlandi greiði sanngjarnan hlut fyrir og að allir þeir samningar séu gerðir á sömu forsendum m.t.t. lengdar þeirra.

P.s.

Gæsareggin fjögur sem tekin voru við dúntekju á Siglufirði verða alin hér á Hraunum og lifa því góðu lífi hér í útungunarkassanum og eru allir smærri dúnbændur sérstaklega velkomnir í kaffi og hitta litlu gulu krúttin, sem vekja kátínu hvers manns er hittir og knúsar þá.

Með virðingu og vinsemd,

Árni Rúnar Örvarsson, eigandi og framkvæmdarstjóri Icelandic Eider ehf.