Það virðist ekki vera hlaupið að því að fá upplýsingar varðandi Covid-19 smit eftir póstnúmerum landsins.
Sr. Sigurður Ægisson sóknarprestur á Siglufirði hugðist afla sér upplýsinga varðandi smit á Siglufirði, vegna kirkjustarfsins sem vera á í Siglufjarðarkirkju á næstunni.
Hann hafði samband við Fjallabyggð, sveitafélagið hafði engar upplýsingar en benti á facebooksíðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur ekki gefið upplýsingar um smit í 10 daga svo ekki var mikið upp úr því að hafa. Hann sendi fyrirspurn á facebooksíðuna og fékk þetta svar um hæl, “Takk fyrir skilaboðin. Ákveðinn hópur lögreglumanna sér um að yfirfara skilaboð og svara en það getur verið á mismunandi tímum. Thanks for messaging us. We try to be as responsive as possible. We’ll get back to you soon.”
Næst hafði hann samband við HSN, sem gat engar upplýsingar veitt um smit. Því næst sendi hann fyrirspurn á covid.is og fékk þetta svar, “Þú skalt senda þessa fyrirspurn á mottaka@landlaeknir.is.” Hann gerði það og fékk þetta svar frá embætti landslæknis: “Embætti landlæknis hefur móttekið tölvupóst sem þú sendir á mottaka@landlaeknir.is og verður hann tekinn til afgreiðslu eins fljótt og kostur er. Fyrirspurnum varðandi COVID-19 eða bólusetningar er EKKI svarað í gegnum þetta netfang heldur skaltu beina fyrirspurn þinni á netspjallið sem finna má á www.covid.is.”
Lét hann þá staðar numið, enda kominn í hring.
Ljóst er að ekki verður hægt að skipuleggja kirkjustarf næstu daga eftir opinberum upplýsingum um Covid-19 smit í byggðarlaginu.