Söluturninn.

Ytrahúsfélagið var stofnað árið 2003 í þeim tilgangi að kaupa og endurbyggja Ytrahúsið eða þann hluta þess, Söluturninn, sem eftir stóð og byggður var 1905. Auk eigin vinnuframlaga naut félagið styrkja frá Menningarsjóði Sparisjóðsins, Siglufjarðarkaupstað, Selvík ehf og Húsafriðunarsjóði ríkisins.

Eftir að viðgerð utanhúss var að mestu lokið urðu eigendaskipti á húsinu og var þá stofnður sjóður til styrktar ýmiskonar málum tengdum miðbæ Siglufjarðar, samanber húsaskiltin við Aðalgötu. Með þeim hætti telja félagsmenn sig endurgjalda að nokkru þann stuðning sem félagið fékk frá fyrrgreindum aðilum.

Á þessu ári ráðgerir Ytrahúsfélagið að setja upp fleiri söguskilti í bænum.

Frá páskum 2018 hafa þau Guðný Róbertsdóttir og Örlygur Kristfinnsson annast rekstur lítils sýningarsalar í Söluturninum og
héldu á árinu þrjár sýningar á verkum vina sinna; Guðmundar (góða) Kristjánssonar, Árna Páls Jóhannssonar og Arnars Herbertssonar.

Í salnum er nú vinnustofa Örlygs þar sem hann undirbýr sýningu á 70 smáverkum þar í sumar.

Á ljósmynd frá 2006 (forsíðumynd) eru Páll Helgason, Hinrik Aðalsteinsson fyrsti formaður, Sveinn Þorsteinsson og Örlygur Kristfinnsson.

 

Myndin var tekin af Sveini, Páli og Örlygi á aðalfundi félagsins fyrir nokkrum dögum.

 

(Fréttatilkynning)