Á 852. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar var tillögum að gjaldskrám fyrir árið 2025 vísað til umfjöllunar í fastanefndum. Gjaldskrár hafa verið teknar til umfjöllunar í nefndum og eru þær nú lagðar fyrir bæjarráð að nýju. Gjaldskrár og þjónustugjöld hækka að jafnaði um 6% frá 1. janúar. Gjaldskrár sem tengjast barnafjölskyldum og fólki í viðkvæmri stöðu hækka að jafnaði um 3,5%.

Með fundarboði á 584 fund bæjarráðs fylgdu tillögur að álagningarreglum fasteignagjalda 2025 ásamt reglum um afslátt af fasteignaskatti. Í tillögunum er lagt til að sorphirðugjald hækki úr kr. 73.700 í kr. 95.000. Tekjumörk fyrir afslætti hækka í samræmi við launavísitölu og hámarks afsláttur af fasteignaskatti hækki úr kr. 90.000 í kr. 100.000.


Fjárhagsáætlun 2025 og þriggja ára áætlun 2026-2028

Sigríður Ingvarsdóttir bæjarstjóri tók til máls á 250. fundi bæjarstjórnar og kynnti fjárhagsáætlun Fjallabyggðar fyrir árið 2025.

Fjárhagsáætlun Fjallabyggðar fyrir árið 2025 er lögð fram til fyrri umræðu ásamt þriggja ára áætlun fyrir árin 2026-2028. Fjárhagsáætlunin er sett fram í samræmi við 62. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, fyrir A-hluta og samantekinn reikning fyrir A- og B-hluta. Í A-hluta er Aðalsjóður auk Þjónustumiðstöðvar og Eignasjóðs. Í B-hluta eru Veitustofnun, Hafnarsjóður, Íbúðasjóður og Hornbrekka, auk hlutdeildarfélaga sem koma inn í reikningsskil sveitarfélagsins eftir hlutfallslegri ábyrgð bæjarfélagsins. Áætlunin sýnir rekstraráætlun, áætlaðan efnahagsreikning og sjóðsstreymi fyrir sveitarfélagið og stofnanir þess.
Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar fyrir árið 2025 gera ráð fyrir að rekstrartekjur Fjallabyggðar nemi 4.553 m.kr. hjá samstæðunni í heild, A- og B-hluta, þar af eru rekstrartekjur A hluta áætlaðar 3.760 m.kr. Rekstrargjöld án fjármagnsliða og afskrifta eru áætluð 4.320 m.kr., þar af A-hluti 3.627 m.kr.

Framlögð áætlun byggir á eftirfarandi meginforsendum:

  • Útsvarsprósenta er óbreytt milli ára þ.e. 14,70%.
  • Hækkun útsvarstekna er áætluð 7%.
  • Álagningarhlutföll fasteignaskatta, lóðarleigu, vatns- og fráveitugjalda eru óbreytt milli ára.
  • Sorphirðugjöld hækka í kr. 95.000 úr kr. 73.700 kr. í kjölfar nýrra laga um úrgangsmál og til þess að mæta kostnaði við rekstur grenndarstöðva og gámasvæða.
  • Gjaldskrár og þjónustugjöld hækka að jafnaði um 6% frá 1. janúar. Gjaldskrár sem tengjast barnafjölskyldum og fólki í viðkvæmri stöðu hækka að jafnaði um 3,5%.
  • Varðandi launakostnað er talsverð óvissa þar sem margir kjarasamningar eru enn óundirritaðir. En í áætluninni er tekið mið af gildandi kjarasamningum og hækkanir um umsamdar launahækkanir.
  • Afsláttur af fasteignaskatti hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum hækkar, og verður að hámarki kr. 100.000.
  • Tekjumörk fyrir afslætti hækka í samræmi við launavísitölu.
  • Frístundastyrkur fyrir börn á aldrinum 4 – 18 ára hækkar í kr. 50.000 úr kr. 47.500.

Rekstrarhagnaður A- og B-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er áætlaður 234 m.kr. Afskriftir nema 235 m.kr. og fjármagnstekjur umfram fjármunagjöld 3,5 m.kr. Rekstrarafgangur samstæðunnar í heild A- og B-hluta er áætlaður samtals 2,1 m.kr. Rekstrarhagnaður A-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er áætlaður 133 m.kr. Afskriftir nema 173 m.kr. Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 30 m.kr. Rekstrarniðurstaða A-hluta sveitarsjóðs er því áætluð neikvæð um 11 m.kr.

Eignir Fjallabyggðar eru áætlaðar í árslok 2025, 6.200 m.kr., þar af eru eignir A-hluta 4.900 m.kr. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 2.683 m.kr. Þar af hjá A-hluta 2.810 m.kr. Eigið fé er áætlað 4.625 m.kr hjá samstæðunni og eiginfjárhlutfall 63,3%. Eigið fé A-hluta er áætlað 3.819 m.kr. og eiginfjárhlutfall 57,6%. Áætlunin gerir ráð fyrir að veltufé frá rekstri A-hluta verði 346 m.kr. Veltufé frá rekstri samstæðunnar A- og B-hluta verði samtals 432 m.kr.
Skuldaviðmið Fjallabyggðar samkvæmt reglugerð 502/2012 verður samkvæmt áætlun 31,0%. Fjárfestingaáætlun gerir ráð fyrir 440 m.kr. fjárfestingu á árinu 2025.
Helstu niðurstöður áætlunar fyrir árin 2026-2028 hvað samstæðuna varðar eru að áætlaðar tekjur 2026 eru 4.730 m.kr., fyrir árið 2027 4.903 m.kr. og fyrir árið 2028 5.081 m.kr. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar er áætluð jákvæð fyrir árið 2026 um 52 m.kr., fyrir árið 2027 um 81 m.kr. og fyrir árið 2028 um 102 m.kr. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri fyrir árið 2026 verði 454 m.kr., fyrir árið 2027 verði það 478 m.kr. og fyrir árið 2028 verði það 503 m.kr.

Bæjarstjórn samþykkir að vísa fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun til síðari umræðu í bæjarstjórn. Á milli umræðna er áætlun vísað til frekari undirbúnings með fram komnum breytingatillögum til bæjarstjóra og deildarstjóra

15.Gjaldskrár 2025

Á 852. fundi bæjarráðs var tillögum að gjaldskrám fyrir árið 2025 vísað til umfjöllunar í fastanefndum. Gjaldskrár hafa verið teknar til umfjöllunar í nefndum og eru þær nú lagðar fyrir bæjarráð að nýju. Gjaldskrár og þjónustugjöld hækka að jafnaði um 6% frá 1. janúar. Gjaldskrár sem tengjast barnafjölskyldum og fólki í viðkvæmri stöðu hækka að jafnaði um 3,5%.

Á 854. fundi sínum samþykkti bæjarráð fyrir sitt leyti framlagðar tillögur að gjaldskrám 2025, þar sem þeim var vísað til afgreiðslu í bæjarstjórn.

Með fundarboði bæjarstjórnar fylgdu tillögur að gjaldskrám 2025 ásamt afgreiðslu nefnda á tillögum.

Bæjarstjórn samþykkir að vísa fyrirliggjandi tillögum að gjaldskrám til síðari umræðu í bæjarstjórn. Á milli umræðna er gjaldskránum vísað til frekari undirbúnings samhliða fjárhagsáætlun.

16.Álagningarreglur fasteignagjalda 2025 og reglur um afslátt af fasteignaskatti

Á 854. fundi bæjarráðs voru samþykktar tillögur að álagningarreglum fasteignagjalda 2025 ásamt reglum um afslátt af fasteignaskatti. Í tillögunum er lagt til að sorphirðugjald hækki úr kr. 73.700 í kr. 95.000. Tekjumörk fyrir afslætti hækka í samræmi við launavísitölu og hámarks afsláttur af fasteignaskatti hækki úr kr. 90.000 í kr. 100.000.

Bæjarstjórn samþykkir að vísa fyrirliggjandi tillögum að álagningarreglum fasteignagjalda til síðari umræðu í bæjarstjórn. Á milli umræðna er álagningarreglum fasteignagjalda vísað til frekari undirbúnings samhliða fjárhagsáætlun.