Eftir mjög langan undirbúning sem hófst vorið 2018 á námskeiðinu “Matarsmiðjan beint frá býli”, í Farskólanum, hefur fjölskyldan á Brúnastöðum í Fljótum opnað eigin matarsmiðju á bænum.

Það er flókið ferli og dýrt að fara í slíkar framkvæmdir hérlendis. Miklar kröfur eru gerðar varðandi húsnæði, mörg leyfi þarf að fá og uppfylla ströng skilyrði.

“En við erum líka komin með frábæra vinnuaðstöðu þar sem við getum dundað okkur fram á elli ár ef lukkan leyfir” segir Stefanía Hjördís Leifsdóttir í færslu sinni á facebook.

Þessa dagana eru fyrstu afurðirnar, geitaostar, að líta dagsins ljós hjá Brúnastaða fjölskyldunni.

“Við hefðum varla farið í þessa vegferð með ostagerð nema vera svo ljón heppin að á Akureyri býr maður sem er mjólkurfræðingur og hefur manna lengsta reynslu af handverks ostagerð á Íslandi, Guðni Hannes Guðmundsson.”

Guðni Hannes er hönnuður ostanna og leiðbeinir fjölskyldunni við að komast af stað með verkefnið.

“Og maður minn hvað þetta er spennandi og skemmtilegt fyrir matgæðinginn og eldhúsfíkilinn mig”, segir Stefanía.

Geiturnar á Brúnastöðum fá hrat frá bruggverksmiðjunni Segli 67 á Siglufirði og spranga, kannski svolítið mildar, undir fjallgarðinum ofan við bæinn og Guðni Hannes mjólkurfræðingur er sérlega ánægður með gæði mjókurinnar sem er bæði próteinrík og feit og virðist henta afar vel til ostagerðar.

Nú er bara beðið eftir söluleyfi frá Mast til að hægt sé að setja ostana á markað.


Myndir í frétt/Brúnastaðir