Riðuveiki er langvinnur og ólæknandi smitsjúkdómur í sauðfé.
Sjúkdómurinn veldur svampkenndum hrörnunarskemmdum í heila og mænu. Flestar kindur sem sýna einkenni eru 1½ – 5 ára. Dæmi eru þó um riðueinkenni í 7 mánaða gömlu lambi og 14 vetra á.
Smitefnið er hvorki baktería né veira heldur prótín, nefnt Príon eða PrP sem hefur breytt lögun og við það orðið sjúklegt og fádæma lífseigt, þolir langa suðu og flest sótthreinsiefni nema helst klór.
Greint var frá grun um riðuveiki á Stóru-Ökrum 1 (Brekkukoti) í Akrahreppi í Skagafirði síðastliðinn föstudag. Sá grunur hefur nú verið staðfestur.
Bóndinn hafði samband við starfandi dýralækni sem tilkynnti héraðsdýralækni um kind með einkenni riðuveiki. Héraðsdýralæknir skoðaði kindina sem síðan var aflífuð, sýni tekin og send til Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum.
Búið er í Tröllaskagahólfi og á svæði þar sem ekki hefur greinst riða síðan árið 2000. Á búinu er nú um 500 fullorðið fé auk um 300 lamba.
Allt fé á bænum verður skorið niður, sem augljóslega er mikið áfall fyrir bændurna.