Birgir Egilsson, forstöðumaður Skíðasvæðisins í Skarðsdal á Siglufirði, hefur á síðasta ári vakið töluverða athygli með skemmtilegum og léttum TikTok-myndböndum frá svæðinu. Þar sameinar hann daglega umsjón skíðasvæðisins, húmor og skapandi efnissköpun með eftirtektarverðum hætti.

„Stemmingskallinn“ í Skarðsdal sem gerir skíðasvæðið sýnilegra

Birgir Egilsson í Skarðsdal, þar sem hugmyndir að TikTok-myndböndum verða oft til.

„Súpa í gangi í hausnum“ allan daginn

Birgir segir að það fari í raun nokkuð vel saman að sinna rekstri skíðasvæðisins og halda úti TikTok-síðu. Hann nýtir dauða tíma á milli verkefna og hugmyndirnar séu nánast í gangi allan daginn.

„Ég nýti allan dauðan tíma á milli verkefna og líka reyndar þegar ég er lagstur á koddann. Í rauninni er ég allan daginn með einhverja súpu í gangi í hausnum á mér sem ég reyni svo að koma út sem einhverju skemmtilegu myndbandi,“

segir Birgir í samtali við trolli.is.

„Stemmingskallinn“ í Skarðsdal sem gerir skíðasvæðið sýnilegra

Hann starfar hjá verktakafyrirtækinu L-7 á veturna þegar fyrirtækið sér um rekstur skíðasvæðisins og gegnir þar starfi forstöðumanns. Sjálfur lýsir hann hlutverki sínu þó með léttum tón.

„Ég er forstöðumaður skíðasvæðis Siglufjarðar á veturna hjá L-7, en minn uppáhaldstitill sem ég gaf mér sjálfur er einfaldlega stemmingskall,“

segir hann og hlær, í sínum kunnulega létta stíl.

TikTok-síða skíðasvæðisins var stofnuð fyrir um ári síðan og að sögn Birgis kviknaði hugmyndin einfaldlega vegna þess hve miðillinn er orðinn vinsæll og nær til margra. Hann hefur sjálfur mikinn áhuga á efnissköpun og fann þar góða leið til að sameina sköpunargleði, húmor og kynningu á skíðasvæðinu. Um leið hafi þetta verið ákveðin útrás fyrir eigin hugmyndir.

„Stemmingskallinn“ í Skarðsdal sem gerir skíðasvæðið sýnilegra

Heimamenn og gestir taka vel í þetta

Viðbrögðin hafa verið afar jákvæð að hans mati. Heimamenn jafnt sem gestir hafi tekið efninu vel og TikTok-síðan hjálpi mikið til við að ná til fólks víðs vegar af landinu. Hann segir umræðuna í kringum efnið hafa verið bæði skemmtilega og jákvæða og að hann hafi hingað til sloppið við miklar athugasemdir.

Birgir viðurkennir að það hafi komið fyrir að fólk þekki hann fyrst og fremst úr TikTok-myndböndunum, þó flestir tengi hann enn bæði við miðilinn og skíðasvæðið sjálft. Að hans sögn hafi honum tekist að halda þessu tvennu nokkuð vel saman.

Það sem honum finnst skemmtilegast við að halda úti TikTok-síðu fyrir lítið skíðasvæði eins og í Skarðsdal er að geta verið hann sjálfur og búið til efni sem dreifist til fólks. Að gera það undir merkjum skíðasvæðisins geri það að verkum að fleiri taki eftir svæðinu á Siglufirði og vonandi dragi það fleiri gesti að, sem aftur skapi meiri stemmingu í bænum.

„Stemmingskallinn“ í Skarðsdal sem gerir skíðasvæðið sýnilegra

Fyrsta lyftan á að fara í gang 17. janúar

Aðspurður um stöðu mála varðandi opnun skíðasvæðisins segir Birgir að staðan sé nokkuð björt. Góður skammtur af hvíta gullinu hafi fallið síðustu daga og verið sé að vinna brekkurnar eftir bestu getu. Ef allt gengur eftir stefnir í að fyrsta lyftan verði sett í gang á morgun laugardaginn 17. janúar á Skíðasvæðinu í Skarðsdal.

Fylgist með Birgi á TikTok hjá Skíðasvæðinu í Skarðsdal.

Allar upplýsingar um Skíðasvæðið í Skarðsdal má finna á www.skardsdalur.is

Myndir: úr einkasafni

TikTok-myndbönd sem setja Skarðsdal á kortið

@skisva.skarsdalur Hjólastell í orlofi heitir það. #fyrirþig #fyp #ísland #iceland #íslenskttiktok ♬ Pat and Mat theme song – Pat.a.Mat.oficial

@skisva.skarsdalur Ekkert næði ! Þetta er Skíðasvæði! #fyrirþig #fyp #ísland #iceland #íslenskttiktok ♬ Don’t Worry Be Happy (Originally Performed by Bobby Mcferrin) [Karaoke Instrumental Version] – Hit The Button Karaoke