Menningar- og viðskiptaráðherra hefur úthlutað styrkjum úr Hljóðritasjóði og Tónlistarsjóði. Viðburðurinn fór fram í Safnahúsinu í Reykjavík.

„Það er augljóslega mikil gróska í tónlistarsenunni á Íslandi eins og sjá má í fjölda umsókna í ár. Ég óska öllum styrkhöfum til hamingju og hlakka svo sannarlega til að heyra afrakstur þessa verkefna. Framtíð íslenskrar tónlistar er björt og ný heildarlöggjöf um tónlist mun marka heildarramma og búa tónlistinni hagstæð skilyrði,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Hærra og Skálmöld hljóta hæstu hljóðritunarstyrkina

Hljóðritasjóður veitir styrki til hljóðritunar nýrrar, frumsamdrar tónlistar sem stuðla á að nýsköpun. Tónlistarmenn, jafnt einstaklingar og hljómsveitir, útgáfufyrirtæki og aðrir sem koma að hljóðritun tónlistar geta sótt um.

Í þessari fyrri úthlutun úr hljóðritasjóði fyrir árið 2023 eru veittar 19 milljónir til 60 verkefna en umsóknir voru 204. Styrkupphæðir eru á bilinu 150 til 800 þúsund krónur. Hæstu styrki fá: Hærra 800.000 krónur, og Skálmöld 700.000 krónur.

27 styrkir til ýmis konar rokk, hipp-hopp og popp verkefna í afar víðum skilningi, 13 styrkir til samtímatónlistar af ýmsum toga, 7 styrkir til fjölbreyttra djass verkefna og 13 styrkir til ýmissa annars konar tónlistarverkefna.

Óperuformið í mikilli sókn

Í gær fór fram seinni úthlutun úr Tónlistarsjóði fyrir árið 2023. Tónlistarsjóður skiptist í tvær deildir í dag, tónlistardeild og markaðs- og kynningardeild. Tónlistardeild veitir styrki til almennrar tónlistarstarfsemi, en markaðs- og kynningardeild veitir styrki til kynningar og markaðssetningar á tónlist og tónlistarfólki hér á landi og erlendis.

Alls bárust 207 umsóknir og sótt var um 234 milljónir. Til úthlutunar voru 38 m.kr. og eru 65 verkefni styrkt að þessu sinni Hæstu styrki fá Sinfóníuhljómsveit Suðurlands og Pera Óperukollektíf, 2.000.000 hvor.

Sex styrkhafar fá eina milljón hver: Lunga, Múlinn jazzklúbbur, Þjóðlagahátíðin á Siglufirði, Þórunn Guðmundsdóttir fyrir ævintýraóperur sínar, Tónlistarhátíðin Erkitíð og Íslenska Schumannfélagið fyrir tónlistarhátíðina Seiglu.

Alls hljóta sjö verkefni tengd óperum styrki auk Óperudaga, þar af fjögur verkefni sem flutt verða undir merkjum þeirrar hátíðar. Þetta endurspeglar þann gríðarlega fjölda umsókna varðandi verkefni tengd óperuforminu sem virðist vera í mikilli sókn. Í forgangi hjá tónlistarráði í tillögum sínum að síðari úthlutun voru fjölmargar tónlistarhátíðir bæði á höfuðborgarsvæðinu og ekki síst þær sem haldnar eru ár hvert út á landsbyggðinni.

Lista yfir alla styrkþega í stafrófsröð má sjá hér

Mynd/aðsend