Heilbrigðisráðuneytið hefur ákveðið úthlutun styrkja til verkefna á sviði fjarheilbrigðisþjónustu á grundvelli byggðaáætlunar stjórnvalda. Kallað var eftir tillögum að verkefnum frá stofnunum heilbrigðisráðuneytisins. Alls bárust umsóknir um styrki til níu verkefna frá sex stofnunum. Við úthlutun styrkja var byggt á forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu og ætlaðan ávinning af verkefnunum. Fimm verkefni hlutu styrk, samtals 43,2 milljónir króna. Tuttugu milljónir króna koma af fjármagni byggðaáætlunar og 23,2 milljónir eru fjármagnaðar af heilbrigðisráðuneytinu.
Ályktun Alþingis um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036 var samþykkt í júní árið 2022. Samkvæmt henni felur Alþingi ríkisstjórn að vinna að framkvæmd stefnu í byggðamálum í samræmi við lög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir og skal gert ráð fyrir framkvæmdinni við gerð fjárlaga hvers árs og í fimm ára byggðaáætlun.
Verkefnastyrkirnir sem heilbrigðisráðuneytið hefur nú úthlutað byggjast á aðgerð A.5. í byggðaáætluninni. Markmið þeirrar aðgerðar er að auka og bæta aðgengi að heilbrigðisþjónustu með nýsköpun og nýtingu tækni og fjarskipta við framkvæmd þjónustu.
Stofnanir og verkefni sem hlutu styrk:
Miðstöð rafrænna heilbrigðislausna: Rafræn samskiptaleið fyrir hópviðtöl og hópmeðferð í gegnum öruggar samskiptaleiðir í Sögu og Heilsuveru. (4,7 m.kr.)
Heilbrigðisstofnun Norðurlands: Innleiðing smáforritsins Memaxi í velferðarþjónustu á Blönduósi. Markmiðið er að rjúfa einangrun og aðstoða fólk til sjálfstæðrar búsetu sem lengst. (10 m.kr.)
Lyfjastofnun: Hugbúnaðarforritun fyrir nýtt tilkynningakerfi sem gerir heildsölum kleift að senda út tilkynningar um lyfjaskort í gegnum vefþjónustu. Markhópurinn eru sjúklingar á lyfjum sem ekki eru til í apótekum. (2,0 m.kr.)
Landspítali: Þróun smáforrits og kaup á búnaði til að efla þjónustu á landsvísu vegna kynsjúkdóma. Verkefnið snýst um samskiptalausnir sem tengjast sýnatökum og stafrænum samskiptum milli heilbrigðisstarfsfólks og sjúklinga.
Sjúkratryggingar Íslands: Þróun, hönnun og uppsetning á upplýsinga- og fræðsluvef fyrir sjúklinga sem þurfa á hjálpartækjum að halda, með mikilvægum upplýsingum um eiginleika tækjanna o.fl. (11,5 m.kr.)
Mynd/aðsend