Í tilefni þess að þessi sunnudagspistill er númer 200 í röðinni, af ýmiskonar myndasyrpusögum, pistlum og greinum sem birst hafa í mínu nafni hér á trölli.is. Þá eru þessi skrif tileinkuð einum af mínum allra bestu vinum, en hann er mér mikil fyrirmynd og leiðbeinandi , hvað varðar allar mínar myndskreyttu Sigló minningasögur.

Þetta er maðurinn sem hefur tekið og safnað myndum og sögum af okkur Siglfirðingum í 80 ár, en hann var bara rétt tæplega 10 ára, þegar hann byrjaði að fikta við ljósmyndun og heima framköllun o.fl.

Stundum finnst mér eins og að ljósmyndarinn Steingrímur Kristinsson, (Baddý) sé einhverskonar goðsagnakenndur myndadraugur eða fylgja, í mínu lífi. Því það er sama hvað mér dettur í huga að skrifa um í mínum Siglufjarðarminningum, þarna var hann og tók myndir af þessu öllu.

Minningamynd um snjóflóð 1973: Leikskálahúsið fræga hvarf niður í fjöru og samtímis fór þetta stóra snjóflóðið líka á stórt og mikið hænsnahús. Fleiri hundruð hænur lágu blóðugar og stórslasaðar innan um brakið í hvítri fönninni. Við guttarnir vorum settir í að safna þeim saman í strigapoka. Strákurinn með Nönnu Franklíns skíðahúfuna neðst á myndinni er ég, 11 ára gamall með slasaða hænu í fanginu. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

ATH. Þessi pistill er ekki MINNINGA(R)-grein í bókstaflegri merkinu, því maðurinn sem ég segi frá í ýmsum minningamyndum og orðum, er enn sprelllifandi og 91 árs gamall, en mig hefur lengi langað til að setja saman texta og lýsa aðdáun minni á ævistörfum hans og þakka honum samtímis fyrir áratuga vináttu og stuðning í minni eigin söguskrifa áráttu. þar sem hann ætíð hefur hvatt mig til dáða og reynst mér vel.


Ungi maðurinn með myndavélina á forsíðumyndinni, var hér í denn oft kallaður “Baddý í Bíó.” Þetta Baddý gælunafn, kemur frá foreldrum hans, en þau fengu nafnið að láni úr gamalli bíómynd, þar sem ein aðalpersónan var strákur sem hét Baddý og var líkt og Denni Dæmalausi freka mikill prakkarastrákur. Viðhengið “í Bíó” kemur frá aukastarfi föður hans, sem var kvikmyndasýningamaður í Nýja Bíó, en því var einnig bætt við, til þess að aðgreina hann frá nágranna stelpu, sem var kölluð Baddý Gunnsteins á þessum árum.

Steingrímur tók síðan við af föður sínum og var hann sjálfur sýningarmaður í áratugi í sama Bíó húsi og þar á eftir, einnig meðeigandi. Þannig passar þetta Baddý í Bíó viðurnefni vel við manninn.

SELFIE! Mynd frá 1968, Steingrímur Kristinsson, sem timburmaður á Haferninum.

Hann var rétt eins og ég sjálfur, nokkuð villtur og ofvirkur á sínum barna og unglingsárum og skóla frammistaðan, var rétt sí svona… mátulega sæmileg. Hann las mest það sem honum sjálfum fannst athyglisvert og lítið af því sem honum var skipað að læra. Hann fékk snemma á sig orðróm frá nokkrum kennurum, um að hann væri bæði kjaftfor og þrjóskur og þar af of vitlaus, til að geta gengið menntaveginn út í lífið.

🤔 Hmm… Svona lærdóms mótlæti hefur eflaust haft áhrif á sjálfstraustið og skapaði líklega einhverskonar mótþróa, en líka kraft og vilja í að sýna og sanna að maður getur sko alveg plummað sig sjálfur og það hefur hann svo sannarlega sýnt og sannað síðustu 9 áratugina og 1 ári betur…

Mótlæti sem ekki drepur mann, herðir mann!
Er oft sagt, en það er okkur Siglfirðingum öllum löngu augljóst, að það er gáfnafarslega ekkert að þessum fjölhæfa og hæfileikaríka Baddý í Bíó strák og var það endanlega staðfest með verðlaunum fyrir góðan námsárangur og skráð í flott skólaskjal, þegar hann 45 ára gamall skellti sér í 2 ára nám í Iðnskóla Siglufjarðar.

Langvarandi kynni og vinátta

Fyrir utan þá staðreynd að hafa þekkt til hans frá blautu barnsbeini, þá hef ég líka lesið ALLT, sem hann hefur skrifað um sjálfan sig og í óendanlega mörgum samtölum, hef ég kynnst honum betur og ekki síst í grúski mínum í t.d. Ljósmyndasafni Siglufjarðar og siglo.is, sem Steingrímur stofnaði, en þar hef ég fundið margt og mikið sem lýsir vel hans persónuleika.

Í staðinn fyrir að ég sé að endursegja þetta allt saman, er einfaldast fyrir ykkur lesendur að fara bara sjálf inn á heimildasíðuna hans og lesa sér til ánægju og enn í dag, bætast reglulega nýjar æviágripa sögur í sarpinn.


Þessi mynd og myndaskýringa textinn segir okkur að Steingrímur sem er fæddur 21 febrúar 1934, fæðist inn í ört breytilegan tækniheim á síðustu öld. Kvikmyndir, ljósmyndir og t.d. útvarps og talstöðvar viðgerðir, tilheyra hversdagsleika barndómsins. Brennandi áhugi hans á “Nýjustu tækni og vísindum”, hefur fylgt honum alla ævi og sést það vel í ýmsum af hans gömlu ljósmyndum af allskyns tækjum og tólum, sem hann sjálfmenntaður maðurinn hefur smíðað og gert allskyns tilraunir með.

Þessi einstaki framsækni hæfileiki og vilji í kenna sjálfum sér nýja hluti, sést líka í öðrum lífsverkum hans, þar sem hann var fljótur að læra á alla þá möguleika sem tilheyra okkar flókna tölvustýrða stafræna heimi í dag.


Mínar fyrstu barnalegu minningar af kynnum mínum af Steingrími tengjast líklega fjölskyldu boði og fékk ég þá að vita að maðurinn sem aldrei fór út úr húsi án þess að vera með minnst tvær myndavélar á maganum, væri eiginmaður Guðnýjar, sem var systir Guggu, konunnar hans Ásgríms Björns frænda míns í móðurætt.

(Frétti seinna að í annarri myndavélinni var svarthvít filma og í hinni rándýr litmynda filma)

Við skulum hafa í huga að það kostaði bæði tíma og peninga að vera með ljósmyndadellu fyrir stafrænu byltinguna miklu.

Svo á ég mér einnig góðar minnar um á þessum tíma SR starfsmanninn, Steingrím í Æskulýðsheimili Siglufjarðar. Þar var hann að kenna okkur ljósmyndatækni og að framkalla filmur og myndir á pappír, ásamt mörgum öðrum ljósmyndadellu æskulýðsfulltrúum eins og t.d. Júlla Júll, Bjarna þorgeirs o.fl. Seinna urðu ljósmynda lærlingar Steingríms, góðir æskulýðsfulltrúar og ljósmyndarar og má þar nefna t.d. Kristján L Möller og Róbert Guðfinnsson.

Það er svolítið merkilegt reyndar og kann ég enga einfalda útskýringu á þeirri miklu ljósmyndadellu, sem fylgir sögu Siglufjarðar, enn í dag og allt frá upphafi síðustu aldar. Þetta fyrirbæri gæti kannski verið ágætis rannsóknarefni í háskólaritgerð.

ATH. Smelltu á mynd og hún birtist þér þá í fullri stærð.

Steingrímur að skrifa upplýsingar á “ritvél” um myndir með einum putta og Júlli Júll er að skera ljósmyndir í undirbúningsvinnu fyrir krakka ljósmyndasýningu í Æskó. Ljósmyndari óþekktur.

Mynd 1: ÆSKÓ.  Æskulýðsheimili Siglufjarðar. Á neðstu hæð var borðtennisherbergi, myrkrakompa og framköllun, á miðhæð samkomusalur, skrifstofa og eldhús, á efstu hæð Skátaheimili. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Mynd 2: Pistlahöfundurinn Nonni Björgvins í framköllunarherberginu í Æskó. Ljósmyndari er Jökull Gunnarsson vinur minn, við eyddum mörgum mörgum klukkutímum þarna.

Sjá meira hér varðandi allskyns minningar um ljósmyndir og leiki:
GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 4 hluti. Ljósmyndir (50 st) og LEIKIR
sksiglo.is | 15.03.2017 | Jón Ólafur Björgvinsson | Lestrar 1796 |


Á unglingsárum mínum, þekkti ég Steingrím sem pabba vina minna, þeirra Möggu, Valla og Kidda og á þessum árum var Steingrímur einnig oft sumarvinnufélagi minn, en þá var hann kranastjóri og meðeigandi í risastórum Link Belt kranabíl og ég var þá steypuvélastjóri mörg sumur. Mér er það mjög svo minnisstætt að Steingrími var annt um öryggi mitt og hvatti mig til varkárni, því hér voru þungir hlutir á ferð og flugi.

Kranastjórinn Steingrímur við vinnu. Myndin er tekin á hans eigin myndavél af Gunna Löggu ,sem var að byggja sér hús við Suðurgötuna.

Eftir að ég flutti suður og síðan erlendis (1990) varð hlé á okkar samskiptum, en svo í kringum 1994-5, þegar nettengingar voru enn ekkert sérstaklega algengar, þá byrjum við að skrifast á gegnum tölvupóst og vorum við Þá báðir að fikta við að búa til heimasíður og svo stofnaði hann stuttu seinna bæjarfréttasíðuna Sigló.is og var ég þar daglegur gestur úr fjarlægð frá Svíþjóð. Þrátt fyrir að maður gat bæði sótt sér kaffi og skroppið í sturtu á meðan heimasíðan var að hlaðast niður, en mér fannst samt ekkert skrítið við að Steingrímur, sem var þá í kringum sextugt væri á kafi í að nota tölvur og búa til forrit og heimasíður.

Síðan þá hafa okkar stafrænu samskipti bara aukist með hverju ári og mér var það mikill heiður að um tíma, fá að vera sumarleyfis fréttasnápur og ljósmyndari fyrir sigló.is heimasíðuna.

Sumar myndir geta oft sagt manni meira en þúsund orða saga: Það fer eftir því hver það er sem skoðar þær, hvaða minningar myndirnar vekja. Mér er akkúrat þessi ljósmynd og þetta augnablik mjög svo kært, því það var svo augljóst að þarna á Saga Fotografica safninu var réttur maður á réttum stað. Steingrímur og hans persóna og kunnátta var í rauninni merkilegasti gripurinn á þessu safni.

Í bakgrunninum sjáum við risastóra, rafmagns knúna tvíeygða, atvinnumanna blaðfilmu myndavél, sem var búinn til af Hugo Svensson í Gautaborg kringum 1945. Þessi myndavél er sem sagt, 10 árum yngri en Steingrímur og hún er í rauninni gríðarlega flókin “analog tölva.” Handbók á sænsku fylgdi með og Steingrímur var minnst sagt fljótur að átta sig á því hvernig hún var notuð og gat þar á eftir svarað gestum og gangandi um allt og ekkert varðandi þessa sögufrægu myndavél, sem og allt annað sem þarna var að finna á Vetrarbraut 17.

Sjá meira hér um safnið, stofnendur og ýmsa merkilega safngripi:
Ljósmyndasögusafnið á Sigló vex og dafnar!
sksiglo.is | Greinar | 20.07.2017 | 20:15 | Jón Ólafur Björgvinsson | Lestrar 1139 | 

Kílómetra langur spjallþráður!

Hvenær getur maður sagt að maður þekki einhvern vel, tja… við getum svo sem mælt vináttu okkar í lengdinni á t.d. spjallþráðum okkar á Messenger.

Þráðurinn okkar Steingríms er óendalega langur, fullur af myndum og vefslóðum og allskyns gríni og ekki síst af tæknilegum góðum ráðum, varðandi flókna stafræna framköllun og endurvinnslu á ljósmyndagæðum og nú síðustu ár um gervigreind o.fl….

Allt í einu getur maður algjörlega að ástæðulausu, fengið svona ljósmynd í spjall þráðinn, með orðunum:
Þekkirðu þennan strák? Var að leika mér með að láta gervigreind setja lit á þessa gömlu svarthvítu mynd…

Ég gleymi því aftur og aftur að ég sé að Chatta við 91 árs gamlan karl, sem býr í þjónustuíbúð fyrir ALDRAÐA á Skálahlíð heima á Sigló.

Þessi mynd dró mig ósjálfrátt inn í minningar um að Gústi Guðsmaður gaf okkur fallegar Jesús myndir á Torginu, en Steingrímur hefur t.d. gefið okkur fleiri hundruð svona ÆSKÓ krakkamyndir, sem auðvelt er að finna á Ljósmyndasafni Siglufjarðar.


Í fyrra haust tilkynnti hann mér að hann ætlaði fara að vinna í því að færa mikið af mínum gömlu greinum frá bæði siglo.is og trölli.is yfir á heimildasíðuna sína. Ég var svona aðeins að vara hann við þessu mikla verkefni og að þetta tæki líklega mikinn tíma frá honum og mikið pláss á heimildasíðunni hans. Steingrímur svaraði um hæl, þetta er ekkert mál, ég er með 5 terabyte geymslurými og ég hef bara gaman af þessu grúski, þetta heldur mér lifandi.

Eins og ætíð þegar hann segist ætla að gera eitthvað, stendur hann við orð sín. Því næstu vikur og mánuði fékk ég Messenger skilaboð með nýsköpuðum 1-2 vefslóðum á dag og þá var hann ekki bara búinn að yfirfæra efnið, heldur einnig endurvinna hverja einustu ljósmynd með gervigreindar prógrömmum líka.

Ég á ekki til orð sem lýsa nægilega vel eljunni og dugnaðinum hjá karlinum og var að hæla honum mikið fyrir þetta framtak, en í spjalli rétt fyrir jólin 2024, finnst mér hann ekki vera móttækilegur fyrir þessu hrósi og fer ég þá að hóta honum í gríni, með að skrifa minningargrein um hann lífslifandi manninn, en hér kemur stuttur úrdráttur frá þessu spjalli 19 desember 2024 sem byrjar með að hann að loknu góðu dagsverki sendi mér vefslóð á enn eina yfirfærða grein:

ÉG:
Já, glæsilegt hjá þér kæri vinur, ég er líka hættur í dag. Er að klára greinar sem eru í 7 hlutum og þær eiga að birtast yfir jól og nýár… Uff… svaka vinna, sérstaklega í Jacobsen sögunni.

Steingrímur:
Ef til vill fáum við einhverja viðurkenningu eftir að við erum báðir dauðir, ha, ha.

Ég:
hehe já líklega, en ég ætla að skrifa minningargrein um þig og leyfa þér að lesa áður en þú drepst, mér finnst nefnilega hálf asnalegt að segja þetta allt við þig dauðan, en þá verður þú líklega enn meira heyrnarlaus, en þú ert nú þegar...😜🤪

Steingrímur:
Það er að minnsta kost 15-20 ár þar til ég gef upp öndina, ég hef bara engan tíma til þess, á eftir að gera svo mikið… svo þú hefur nægan tíma í að skrifa þessa minningargrein ha, ha. 🤣

ÉG:
Við erum báðir trúleysingjar, svo það getur varla verið helgispjöll að birta svona grein: Minningargrein um merkilegan mann, sem er ekki dauður… hahah flottur titill.

Steingrímur:
👍

Ég:
Manstu eftir þessari smásögu frá mér: Pétur Ódáni er heimsins elsti maður. Ef ekki, þá skaltu endilega lesa hana aftur.

Steingrímur:
Ég kannast við söguna, las fyrir nokkrum mánuðum, er ég var að sortera efnið þitt sem tengist Siglufirði.

ÉG:
Já, en fyrirmynd aðalpersónunnar ert ÞÚ!

Steingrímur:
Ekki tók ég eftir því, ég verð að lesa þetta aftur………..

Smásagan sem ég nefni í spjallinu, er um með eindæmum langlífaðan Siglfirðing og ég efast ekkert um að Steingrímur verði það líka. Aðalpersónan Pétur Ódáni er 124 ára, þá orðin lífslifandi þjóðsagnapersóna, en er þrátt fyrir háan aldur einnig mikið og nútímalegt tæknitröll, rétt eins og Baddý í Bíó.


Hér um daginn var ég síðan aðeins að vara hann við um að bráðum kæmi þessi minningargrein og ég sendi honum skjáskotsmynd af forsíðumynd og fyrirhuguðum greinartitli:

21 sept. 23.40:

Hérna færðu skjáskot af forsíðumynd og fyrirsögn greinar sem er í smíðum núna… ÞEKKIR ÞÚ ÞETTA AUGA?
Sem hefur SÉÐ ALLA SIGLFIRÐINGA Í 90 ÁR!

Fékk svar eins og skot: Þetta er ekki mitt auga, þetta er mynd sem ég tók 1965 og augað tilheyri Margréti dóttur minni….

Andskotinn sjálfur, hugsa ég upphátt, nú þarf ég að búa til aðra forsíðumynd, hvernig í fjandanum man þessi háaldraði maður, sem hefur tekið milljón myndir, eftir akkúrat þessari mynd. Alveg ótrúlegt….

Svo fór ég líka að efast um hvort að rétt væri að nota orðið “Minningargrein” því fólki liggur oft svo á, í hraðferð sinni um netið og gæti þá misskilið þetta orð og byrjað að senda Steingrími samúðarkveðjur og þá yrði blessaður karlinn að senda frá sér tilkynningu um að:

Sögusagnir af andláti mínu er stórlega ýktar…

… þetta er bara grín, bull og skáldskapur frá vini mínum Nonna Björgvins!

En án gríns, þegar maður lítur yfir lífsskeið Steingríms, er eins og það séu fleiri klukkutímar í sólarhringnum hjá svona mönnum, en hjá okkur hinum. Því honum hefur tekist samfara fullri vinnu, fjölskyldulífi og barnauppeldi að skapa stórkostlega hluti, sem héðan eftir munu standa sem stafrænir minnisvarðar um alla eilífð.

Þetta eru ekki bækur, styttur eða verðlaunapeningar sem eru til sýnis á söfnum. Nei, þetta eru, vefsíður og gagnabankar sem ALLIR hafa ókeypis aðgang að.

Í einum af stafrænum sköpunarverkum Steingríms, eru t.d. fleiri hundruð þúsund ljósmyndir aðgengilegar, myndir sem sýna okkur horfin hversdagsleika, okkur sjálf á yngri árum og í rauninni einfaldlega sjálft “Lífið á Sigló” í meira en heila öld aftur í tímann.

Í þessum minningarorðum færðu lífslifandi, stórar þakklætiskveðjur, frá mér kæri vinur.

P.s. Ég sé fyrir mér orð í framtíðar minningagreinum, þar sem þau stafrænu spor sem við skiljum eftir okkur verða meira metinn. Tja, þú veist, fyrst kemur þetta venjulega kjaftaði bla bla bla og svo:

… og lætur hann einnig eftir sig 10 terabyte af nú munaðarlausum myndum og sögum!

Að lokum

Og ekki má gleyma heldur að Steingrímur var til fjölda ára einnig fréttaritari og blaðaljósmyndari.


Höfundur samantektar:
Jón Ólafur Björgvinsson .

Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/

Forsíðu ljósmynd:
Ljósmyndari: Hallgrímur Hafliðason (Halli Nonni)
Aðrar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá eigendum og Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Heimildir:
Vísað er í ýmsar heimildir gegnum vefslóðir í greininni.