Bye Bye Honey er það nýjasta nýja frá superserious en það er hresst, skemmtilegt, poppað og smá rokkað lag. Virkar vel fyrir alla þá sem eru í tilvistarkreppu og/eða hræðast einsemd í ellinni.

Lagið verður leikið á FM Trölla í þættinum Tíu Dropar sem er á sunnudagsmorgnum kl. 10 – 12.

Superserious gaf út EP-plötuna let’s get serious haustið 2021, en lögin af þeirri plötu voru tíðir gestir vinsældarlista útvarpsstöðva landsins.

En nú er komið að nýrri tónlist!

Sveitin tók nýlega upp sína fyrstu breiðskífu í Malmö í Svíþjóð í hljóðverinu Gula Studion þar sem Arnar Guðjónsson (tónlistarmaður og pródúser) var á tökkunum ásamt Kristni Þór (meðlimi superserious). Platan nær að blanda saman indí rokki, pönki, poppi, lagom og IKEA öllu saman í einn vegan bragðaref. Ekkert nema lög sem vonandi gleðja og seðja gítarþyrst fólk.

Þetta er fyrsta lagið sem þau gefa út af komandi breiðskífu og kom það út á Spotify föstudaginn 21. október.

Hvað er superserious eiginlega?

Hljómsveitin Superserious er samansafn af fólki sem elskar að semja tónlist og að flytja hana fyrir alla sem nenna að hlusta.

Í hljómsveitinni eru systkinin Daníel Jón Jónsson (söngvari og gítarleikari) og Heiða Dóra Jónsdóttir (söngvari og textasmiður) sem og frændurnir Kristinn Þór Óskarsson (bassaleikari og hljómborðsleikari), Haukur Jóhannesson (gítarleikari) og Helgi Einarsson (trommuleikari).

Um hvað er lagið eiginlega?

Heiða Dóra gerði textann og hér er það sem hún hafði að segja:

„Textinn var saminn um eldri mann sem ég hitti á Karaoke bar þegar ég var um tvítugt. Hann var mikill sjarmör og trúði mér fyrir því að hann hefði verið mikill kvennabósi á yngri árum og að hann hefði alltaf verið að skipta út einni konu fyrir þá næstu haldandi að það væri alltaf eitthvað betra handan við hornið. En svo þornuðu sjénsarnir upp og hann dalaði uppi einn. Og hann hafði þaá spilað frá sér einhverjum ás sem hann hafði séð eftir.“

Fyrstu drög lagsins urðu til þegar Daníel var tvítugur þannig það er greinilega tvítug orka yfir þessu öllu saman.

Ertu með réttu manneskjunni? Þorir þú ekki að enda sambandið vegna hræðslu um að vera ein/n? Kannt þú að vera ein/n yfir höfuð?

Hræðslan um að enda ein/n í ellinni (vegna hégóma) er kunnugleg tilfinning sem allir kannast við og því tilvalið umfangsefni í hressandi popplag!

Lagið á Spotify