Rokksveitin superserious gefur út sex laga plötuna let’s get serious. Áður hafa komið út lögin let’s consume og let’s be grown ups.

Let’s get serious er fyrsta plata hljómsveitarinnar superserious. Lögin byrjuðu að fá á sig hljóm þegar Daníel Jón Jónsson, söngvari sveitarinnar bjó út í London. Þá fékk gamalt efni nýjan hljóm og mörg ný lög fæddust. Lögin áttu í engum erfiðleikum með að verða til, en textarnir þvældust oft fyrir honum. Eftir að hafa lesið falleg ljóð eftir þáverandi sambýliskonu sína, Ingeborg, fékk Daníel hana til að semja textana. 

Upptökur hófust um leið og Daníel flutti aftur heim til Íslands, en mikil tónlistar samskipti höfðu verið á milli æskuvinanna Daníels, Hauks og Kristins á þessum tíma. Platan varð til í litlu stúdíói í Garðabænum en hann Kristinn Þór Óskarsson sá um upptökur og pródúseringu. Haukur Jóhannesson spilaði á gítar, Ingeborg og systir Daníels, Heiða, sungu bakraddir. Jón Rúnar Ingimarsson og Helgi Einarsson sáu um trommur og Daníel söng og spilaði á gítar. Arnar Guðjónsson gerði loka mix á öllum lögum og Addi 800 masteraði.

Lagalisti

let’s get real – ISB112108501 
let’s be grown ups – ISB112104001            
let’s consume – ISB112101301                 
let’s drop the act – ISB112108502            
let’s domesticate – ISB112108503            
let’s hurt – ISB112107601      

Um superserious

Superserious kemur með ferska og svalandi strauma inn í íslenskt tónlistarlíf með melódísku og gítarhlöðnu indírokki. Sveitin gerði fyrst vart um sig með því að bera sigur úr býtum í Sykurmolanum, nýliðakeppni X977, með smellinum Let’s Consume. Í kjölfarið kleif lagið upp vinsældarlista á útvarpsstöðvum, enda einstaklega grípandi með líflegum gítar- og bassalínum.

Meðlimir sveitarinnar eru þrír talsins og hafa margar fjörur og drykki sopið saman þegar kemur að tónlist og sköpun. Þeir stíga nú fram fullmótaðir undir nafni Superserious, tilbúnir að takast á við þá köllun að koma gítar, bassa og trommum aftur inn í tónlistarvitund Íslendinga. Er annars ekki kominn tími á smá stemingu?

Let’s get serious á Spotify