Síðastliðinn þriðjudag, 31. maí kom saman margmenni við Róaldsbrakka þegar Síldarminjasafnið veitti síðustu síldartunnunni formlega móttöku. Tunnan sem um ræðir átti upphaflega að koma til landsins fyrir tæpum fjörutíu árum síðan, en féll frá borði og í hendur Petters Jonny Rivedal frá Noregi sem hefur varðveitt hana síðan.
Saga síldartunnunnar sem Petter Jonny hefur nú varðveitt í um 40 ár er svolítið eins og framhaldssaga síldarævintýrisins. Því rétt eins og sjálft síldarævintýrið, er það svolítið ævintýralegt að tunnan hafi fallið útbyrðis og ratað í hendur Petters Jonny sem hefur gætt hennar í hátt í hálfa öld og nú tryggt að hún komist loks á leiðarenda. Það var því mjög táknræn stund þegar tunnan var formlega afhent Síldarminjasafninu til varðveislu.
Óhætt er að segja að mikil gleði hafi ríkt meðal viðstaddra meðan afhendingin fór fram – og ekki síður að henni lokinni þegar fram fór síldarsöltun og bryggjuball á planinu við Róaldsbrakkann.
Sjá nánar á vefsíðu safnsins: http://www.sild.is/frettir/sidasta-sildartunnan
Myndir/Hildur Örlygsdóttir og Sigurður Ægisson