Fimmtudaginn 16. maí 2019 kl. 17.00 opnar myndlistamaður ársins, Eygló Harðardóttir sýningu í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði.
Sýningin er opin til 2. júní og er opin daglega frá kl. 14.00 – 17.00.
Eygló Harðardóttir (f.1964) vinnur gjarnan tví- og þrívíða abstraktskúlptúra og bókverk. Hráefni eins og pappír, bæði nýr og endurnýttur, litríkt fundið efni, plast, viður, grafít og gler leggja grunn að hugmyndum Eyglóar og eru drifkraftur til að kanna möguleika og takmarkanir miðilsins hverju sinni. Sköpunarferlið einkennist af rannsóknum og könnun á efninu, þar sem möguleikar og takmarkanir eru kortlagðar, og auðkenni þess rannsökuð.
Eftir stendur verk sem er afsprengi ferils þar sem efnið hefur ráðið för, þar sem það er teygt og því breytt og því fengið annað hlutverk.
Verk Eyglóar eru meðal annars varðveitt í Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Nýlistasafninu, Ríkisútvarpinu og menningarsetrinu Kultuurikauppila í Finnlandi. Frá árinu 2015 hefur Eygló unnið innan ramma bókverksins og dvaldi hún nýlega hjá WSW Residency, í New York. Þar gerði hún ýmsar efnis- og litatilraunir á prentverkstæði, og varð útkoman meðal annars bókverkið Annað rými.
Eygló lærði í Myndlista- og handíðaskóla Íslands (1983-87) og Akademie voor Beeldende Kunst en Industrie í Enschede Hollandi (1987-90), en auk þess hefur hún lokið meistaragráðu í kennslufræðum við Listaháskóla Íslands (2014).
Á ferli sínum hefur Eygló haldið fjölda sýninga. Íslensku myndlistarverðlaunin 2019 hlaut hún fyrir einkasýningu sýna „Annað rými” í Nýlistasafninu.
Heimasíða: eyglohardardottir.net
Ljósmyndari: Helga Óskarsdóttir
Uppbyggingasjóður/Eyþing, Fjallabyggð, Norðurorka og Aðalbakarí styrkja menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.