Vestur Húnvetningurinn Sigurvald Ívar Helgason (Silli) hefur áratuga reynslu sem hljóðmaður, ljósamaður og alhliða tæknimaður í leikhúsum og tónleikasölum, bæði hérlendis og erlendis. Silli var einn af þeim sem stóð að uppsetningu Leikflokks Húnaþings vestra á söngleiknum Hárinu, þar sem hann sá um ýmis tæknimál og endaði svo með því að leika í sýningunni á trommusett með hljómsveitinni, en hann er einnig afbragðs trommuleikari.

Silli skrifar svo á facebook síðu sinni:

Takk!

Eins og mörg ykkar hafa eflaust orðið vör við á samfélagsmiðlum, þá setti okkar pínulitli, en samt á sama tíma; hinn risastóri Leikflokkur Húnaþings- vestra upp Hárið í Félagshimilinu á Hvammstanga um páskana.

Nánast með annarri hendi tókst einni manneskju ( Ingibjörg ) að gera hugmynd að veruleika, þar sem tóku þátt 42 einstaklingar (fyrir utan öll þau sem studdu við verkefnið með einum eða öðrum hætti). Sýningin mæltist afar vel fyrir og sóttu rúmlega 1.000 manns 6 sýningar, sem er fjandi gott í samfélagi sem telur rétt um 1.200 manns!

Við erum svo ótrúlega heppin hér í Húnaþingi- vestra að eiga á “lager” nánast endalaust af hæfileikaríku-, og ekki síst jákvæðu fólki, sem er til í svona “rugl”. Reyndar sóttum við hljóðmeistarann til Siglufjarðar en hann litli/stóri bróðir minn er auðvitað húnvetningur í húð og hár, snillingurinn sá.

Það er hreint með ólíkindum að hægt sé að setja upp slíkt stórvirki sem Hárið er (allavega á okkar skala) í svona litlu samfélagi og þarf skrambi margt að ganga upp svo vel fari. Ekki það að við nennum ekki hálfkáki.., en það kostar miklar fórnir og mikinn tíma, enda allir þátttakendur í öðrum verkefnum.. vinnu t.a.m., alveg eins og í öðrum áhugaleikhópum. Að auki eigum við samastað fyrir svona sprell í alveg hreint mergjuðu húsi sem Félagsheimilið á Hvammstanga er.

Ég hef tekið þátt í mörgum atvinnumannasýningum, enda var mitt lifibrauð í nærri 2 áratugi að starfa í atvinnuleikhúsi, en orkan, viljlinn og gleðin hjá þessum magnaða hóp er engu líkt!

Svo vel gekk að sýningin okkar var valin úr 17 tilnefndum áhugasýningum til að sýna í Þjóðleikhúsinu nú í júní.
Móttökur starsfólks ÞLH voru með þvílíkum eindæmum þrátt fyrir býsna erfiðar undanfarnar vikur þar á bæ og m.a. að mínu viti; fáranlega og ósanngjarna umræðu um stjórnendamál, sem hlýtur að hafa tekið á.

Aldrei fundum við fyrir því að við sveitalúðarnir/amatörarnir værum fyrir, eða litið niður til okkar – Þvert á móti! Allir lögðu kapp á að gera þessa sýningu eins vel skil og kostur var, enda létu viðbrögðin ekki á sér standa.

Ég er svo ótrúlega þakklátur fyrir að fá að taka þátt í ævintýrinu sem þessi tími var, og á ég aldrei eftir að gleyma þeirri upplifun að fá að tromma á Stóra sviðinu í Þjóðleikhúsinu, í besta sándinu, með besta fólkinu, fyrir brjálaða áhorfendur, og í uppáhalds húsinu mínu.

Takk kærlega fyrir mig elsku vinir og kunningjar í Leikflokknum og takk fyrrum samstarfsfólk í Þjóðleikhúsinu – Mikið var gaman að hitta ykkur öll!

Samfélagslega er það ekki nokkur spurning að svona uppákomur hafa heilmikil áhrif og þjappar fólki saman. Meira svona!

 

   

Myndir: af facebook síðu Sigurvalds.