Sex heilbrigðisstofnanir og 22 sveitarfélög munu taka þátt í þróunarverkefnum sem ganga út á að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk í heimahúsum.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið auglýstu í sumar eftir slíku samstarfi við sveitarfélög og heilbrigðisstofnanir. Áhugi fyrir þátttöku var mikill og hvorki fleiri né færri en 19 umsóknir bárust.

Þróunarverkefnin eru hluti af aðgerðaáætluninni Gott að eldast, með henni taka stjórnvöld utan um þjónustu við eldra fólk með nýjum hætti.

Markmið þróunarverkefnanna er að finna góðar lausnir á samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk og flétta vandlega saman þá þætti sem ríkið sér annars vegar um og hins vegar sveitarfélögin.

Meðal þróunarverkefna sem verða undir merkjum Gott að eldast er að ráðast í aðgerðir sem hverfast um heilbrigða öldrun með alhliða heilsueflingu, sveigjanlega þjónustu og stórbættan aðgang að ráðgjöf og upplýsingum um þjónustu fyrir eldra fólk.