Eldri borgari gagnrýnir kjör sín og segir þau langt undir lágmarksframfærslu. Í aðsendri grein sem barst Trölla.is lýsir hann stöðu sinni og bendir á að hann hafi aðeins 306.778 krónur útborgaðar á mánuði til framfærslu.
Hann segir að ástæðan sé sú að hann hafi orðið fyrir slysi á unglingsárum sem gerði honum ókleift að stunda hefðbundna launavinnu og safna sér lífeyrissjóði eða öðrum varasjóði til elliáranna. Hann þurfi því alfarið að reiða sig á ellilífeyri frá ríkinu.
Í pistlinum segir að slíkar tekjur séu ekki nægar til að lifa af og að staðan sé þung. Hann lýsir því að eldri borgarar séu „gleymt fólk“ sem eigi erfitt með að standa undir framfærslu og þurfi jafnvel að kyngja stolti sínu og leita aðstoðar til að ná endum saman.
Hann bendir á að nýlegar breytingar hafi verið gerðar á örorku- og endurhæfingarkerfinu, sem hann fagnar og vonar að reynist bæði árangursríkar og réttlátar. Hins vegar hafi hann ekkert séð um sambærilegar aðgerðir til að bæta stöðu eldri borgara.
Í niðurlagi pistilsins segir hann að í velferðarsamfélagi eigi eldri borgarar ekki að þurfa að lifa við slíkar aðstæður og kallar eftir að kjör þessa hóps verði leiðrétt.

