Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði hefur verið frestað um eitt ár.
Til stóð að halda hátíðina dagana 1. til 5. júlí en af því getur ekki orðið. Í staðinn verður hátíðin haldin dagana 7. til 11. júlí 2021. Þjóðlagasetrið verður hins vegar opið í sumar frá 1. júní til 31. ágúst. Haldnir verða sumartónleikar í setrinu með mörgum kunnum listamönnum. Dagskrá tónleikanna verður auglýst síðar.
Þjóðlagahátíðin sumarið 2021 ber yfirskriftina Fornar tungur og tónlist og koma tónlistarmenn víða að úr heiminum til leiks. Flutt verður tónlist á fornum tungum á borð við grísku, litháísku og ladino úr sefardískri tónlistarhefð gyðinga sem og á forníslensku.
Á meðal gesta á hátíðinni verða nemendur við Listaháskólann í Vilnius, Ragnheiður Gröndal, KIMI-tríóið frá Danmörku, djasshljómsveitin Gaukshreiðrið, Þjóðlagatríóið JÆJA frá Englandi, Salamander frá Svíþjóð, Skuggamyndir frá Byzans, kvennakórinn Vox Feminae og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins.
Þjóðlagahátíðin á Siglufirði hefur verið haldin árlega frá árinu 2000. Hún er alþjóðleg tónlistarhátíð með áherslu á að kynna tónlist ólíkra þjóða og þjóðarbrota sem og íslenska tónlist, gamla sem nýja. Auk tónleika er staðið fyrir sérstakri þjóðlagaakademíu og fjölbreyttum námskeiðum fyrir börn og fullorðna. Gunnsteinn Ólafsson er listrænn stjórnandi Þjóðlagahátíðarinnar á Siglufirði.
Sjá nánar www.siglofestival.com.