Þjóhnappurinn 2025 fór fram í aðstöðu Pílufélag Fjallabyggðar mánudaginn 29. desember síðastliðinn og reyndist þetta stærsta mót sem haldið hefur verið frá stofnun félagsins. Alls tóku 32 pílarar þátt og var keppnin leikin í 501 SIDO, fyrst í riðlum og að því loknu með útsláttarfyrirkomulagi um bæði Þjóhnappinn og Rótarann.

Þjóhnappurinn 2025 sló öll fyrri met í Fjallabyggð - Myndir

Í úrslitum um Þjóhnappinn mættust Halldór Ingvar Guðmundsson og Friðrik Örn Ásgeirsson. Þar hafði Halldór betur með sannfærandi sigri, 4–1. Í úrslitaleik um Rótarann leiddu saman Jóhann Þór Elísson og Erlingur Sigurðsson og þar var það Erlingur sem stóð uppi sem sigurvegari, einnig með 4–1 sigri.

Halldór Ingvar átti afar sterkt mót og var ekki aðeins sigurvegari Þjóhnappsins heldur skoraði hann jafnframt flest 180 á mótinu. Alls náði hann þremur slíkum hámarksútskotum. Best klæddi pílarinn að mati dómnefndar var Jóhann Þór Elísson sem vakti athygli bæði á borðinu og utan þess. Hæsta útskot mótsins átti Víðir Freyr þegar hann lokaði glæsilega á 108.

Þjóhnappurinn 2025 sló öll fyrri met í Fjallabyggð - Myndir

Auk verðlauna fyrir efstu sætin voru dregin út nokkur úrdráttarverðlaun og var stemningin í salnum eftir því. Verðlaunaborðið var með glæsilegra móti og þar mátti finna bikara og farandbikar ásamt veglegum vinningum. Meðal styrktaraðila voru Björgunarsveitin Tindur sem lagði til flugelda, Kjörbúðin og Kjarnafæði með kjötvörur og Mjólkursamsalan með vinninga.

Þjóhnappinn halda fyrrum meðlimir Þjóhnappa, þeir Sturla Sigmundsson og Kristján Hauksson, og rennur allur ágóði mótsins til Pílufélags Fjallabyggðar. Eins og fram hefur komið heppnaðist mótið einstaklega vel og ljóst er að Þjóhnappurinn hefur skipað sér sess sem einn af föstu og vinsælustu viðburðum í pílukastlífi Fjallabyggðar.

Þjóhnappurinn 2025 sló öll fyrri met í Fjallabyggð - Myndir

Myndir: Af Facebook-síðu Pílufélags Fjallabyggðar.