Heilbrigðisráðuneytið minnir enn á bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar.
Þörf er á fleira heilbrigðisstarfsfólki á skrá sem hefur aðstæður til að veita liðsinni til að mæta vaxandi álagi á heilbrigðisstofnunum vegna fjölgunar Covid-19 smita.
Annars vegar hefur innlögnum vegna Covid fjölgað nokkuð síðustu daga en það eru ekki síður forföll starfsfólks sem valda mönnunarvanda.
Í gær voru til að mynda 248 starfsmenn Landspítala Covid sýktir og í einangrun og við Sjúkrahúsið á Akureyri nærri 50 starfsmenn forfallaðir vegna Covid.
Sem fyrr er jafnan mest þörf fyrir sjúkraliða, hjúkrunarfræðinga og lækna en einnig er óskað eftir fólki á skrá úr öðrum heilbrigðisstéttum.
Athygli er vakin á því að nemar í hjúkrunarfræði, læknisfræði og sjúkraliðanámi geta skráð sig í bakvarðasveitina.