Þrír kennarar frá MTR tóku þátt í námskeiði á Lanzarote, austustu eyju Kanaríeyja, í síðustu viku. Námskeiðið kallaðist ART AND NATURE FACING THE CHALLENGE OF SUSTAINABILITY, sem mætti þýða sem Listir og náttúra mæta áskorun um sjálfbærni. Námskeiðið var sérstaklega hannað handa hópi kennara úr fjórum framhaldsskólum á Íslandi: FB, FSN, MTR og Verzló og styrkt af Erasmus+ áætluninni. Endurmenntunarstofnun kennara á Lanzarote, CEP, sá um skipulagningu þess og naut íslenski hópurinn sérstakrar gestrisni fulltrúa þeirra sem og sveitarfélags svæðisins.
Farið var í tvær skólaheimsóknir og sérstaklega fræðst um hvernig skólarnir takast á við áskoranir í umhverfismálum. Í framhamhaldsskólanum IES í Altavista eru engar bækur notaðar við námið heldur er það allt rafrænt svo ekki þurfi að nota pappír. Rusl sem fellur til í skólanum er allt flokkað og nemendur mega ekki koma með plastflöskur í skólann, allir nota margnota flöskur og sama má segja um ílát undir nesti. Einu sinni á ári er öll matarolía sem fellur til á heimilum nemenda endurunnin og nemendur búa til úr henni sápu. Sápan er notuð við þrif á skólanum og einnig taka nemendur hana með sér heim. Matarafgangar eru nýttir í moltugerð og moltan notuð í matjurtagarða sem nemendur sjá um. Þótti íslenska hópnum mjög áhugavert að sjá hversu markvisst var unnið að ýmsum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna í skólanum.
Seinni skólaheimsóknin var í grunnskólann CEIP Costa Teguise, sem var valinn einn af 10 framúrskarandi skólum í nýsköpun af öllum grunnskólum á Kanaríeyjum. Í skólanum eru nemendur frá 4-14 ára af 35 mismunandi þjóðernum. Mikill áhersla er lögð á útikennslu og var gaman að sjá nemendur á mismunandi aldri vinna fjölbreytt verkefni úti undir berum himni í hinum ýmsum greinum. Einnig var hluti af skólastarfinu að hirða umhverfið, safna laufblöðum, vökva plöntur o.fl. Úvarpstöðvar eru í mörgum skólum á Lanzarote og tóku nemendur viðtöl við nokkra kennara úr íslenska hópnum sem verða flutt í útvarpsþáttum á næstunni.
Auk skólaheimsóknanna nutu þátttakendur náttúrunnar og fræddust um hana og sinntu listsköpun. Fékk hópurinn m.a. tilsögn í að gera cyanotypes, þrykk og mósaík. Einnig var farið í heimsókn til fjöllistamannsins Ildefonso Aguilar sem er mikill íslandsvinur. Var það mikil upplifun. Ekki var heimsókn í stofnun César Manrique, aðal frumkvöðuls og listamanns eyjarinnar, síðri en þar er samspil náttúrunnar, mannsins og listarinnar einstakt. Manrique setti sannarlega mark sitt á eyjuna og skoðaði hópurinn m.a. síðasta verk hans, kaktusa garð með margra metra háum plöntum, sem hann skipulagði.
Á síðasta degi heimsóknarinnar var farið í Þjóðgarðurinn Timanfaya, sem er eldfjallagarður. Eldgos hófst þar árið 1938 og stóð yfir í 6 ár sem varð til þess að allt líf þurrkaðist út, enda eru þar 24 eldfjöll. Þar má aðeins aka um í skipulögðum ferðum á hópferðabílum og almenningur má ekki ganga þar um. Góð stýring er á ferðamannastraumnum og ýmislegt sem Íslendingar gætu tekið sér til fyrirmyndar þar. Umhverfið var mjög líkt ýmsu sem fyrirfinnst hér á landi og Reykjanesskaginn kannski nærtækasta dæmið. Leiðin sem liggur um þjóðgarðinn var hönnuð af César Manrique og eins hringlaga veitingahús sem er efst uppi í þjóðgarðinn. Að lokum fékk hópurinn leiðsögn um vínekrur og áhugaverða fræðslu um vínrækt í eldfjallalandi. Námskeiðið var sérlega áhugavert og vel heppnað. Augljósar tengingarnar eru milli eyjana tveggja, Íslands og Lanzarote, sem endurspeglast í umhyggju fyrir náttúrunni og áhyggjur af áhrifum loftslagsbreytinga, vaxandi ferðamennsku og mikilvægi hlutverka okkar í að fræða og mennta. Myndir
Forsíðumynd: Bergþór, Lára og Ida
Mynd/ af vefsíðu MTR