Fimmtudaginn 22. júní næstkomandi verður stofnfundur haldinn fyrir Þróunarfélag Hríseyjar, sem kynnt var fyrir eyjaskeggjum 3. júní síðastliðinn, en kynningin var hluti af Sjómannadags hátíðhöldum í eyjunni segir á vefmiðlinum kaffid.is

Fyrir um það bil ári síðan fengu Hríseyingar styrk frá innviðaráðuneytinu, með stuðningi SSNE, fyrir byggðaþróunarverkefninu Áfram Hrísey og er stofnun þróunarfélags þáttur í því verkefni. Að sögn Ásrúnar Ýr Gestsdóttur, verkefnastýru Áfram Hrísey, er hlutverk þróunarfélagsins að gefa öllum þeim sem er annt um hagsmuni eyjunnar og hafa áhuga á uppbyggingu þar, vettvang til að standa saman.

Á hrisey.is, vef Ferðamálafélags Hríseyjar, kemur fram að Þróunarfélag Hríseyjar verði leiðandi í almennri byggða- og uppbyggingaþróun í Hrísey í samvinnu við íbúa, fyrirtæki og félög í Hrísey ásamt Akureyrarbæ. Þá falli byggðaþróun, atvinnuþróun og íbúaþróun þar undir. Unnið verði að verkefnum og sótt um styrki í nafni Þróunarfélagsins sem ekki muni skarast á við styrki og verkefni sem Ferðamálafélag Hríseyjar sækir um og vinnur að.

Stofnfundurinn verður haldinn í Hlein klukkan 20:00 en þeir sem ekki sjá sér fært að mæta eru hvattir til þess að hafa samband við Ásrúnu Ýr í gegnum netfangið afram@hrisey.is eða í síma 866-7786.