Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN), Dalvíkurbyggð og hjúkrunarheimilið Dalbær á Dalvík hafa undirritað samning um rekstur samhæfðrar þjónustu eldri borgara í sveitarfélaginu. Samningurinn er byggður á aðgerðaáætlun stjórnvalda, “Gott að eldast” sem samþykkt var á Alþingi þann 10. maí 2023.
Hjúkrunarheimilið Dalbær verður rekstraraðili verkefnisins með stuðningi frá HSN og Dalvíkurbyggð. Sameiginleg markmið með samþættri heimaþjónustu eru að auka lífsgæði eldri borgara Dalvíkurbyggðar, einfalda boðleiðir og tryggja samfellu í þjónustu.
Helstu atriði samningsins:
- Samþætting þjónustu sem eflir heimaþjónustu við eldri borgara Dalvíkurbyggðar
- Rekstur heimahjúkrunar og félagsþjónustu í heimahúsum færist yfir á Dalbæ
- Kvöldþjónusta sett á laggirnar og helgarþjónusta efld
- Nýtt starf tengiráðgjafa sem tekur á félagslegri einangrun fólks
- Nýtt starf iðjuþjálfa til að vinna í heimaendurhæfingarteymi
„Það eru gríðarlega mörg tækifæri sem „Gott að eldast“ verkefnið færir okkur“ segir Elísa Rán Ingvarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Dalbæ. „Með því að hafa allan reksturinn á einni hendi gefst tækifæri til að gera þjónustuna skilvirkari, einfalda boðleiðir og auka þjónustu við eldri borgara í Dalvíkurbyggð. Með þróunarverkefninu fylgir einnig fjármagn fyrir tengiráðgjafa og starfi iðjuþjálfa í heimaendurhæfingu.”
“Við höfum mikla trú á þessu verkefni en því er ætlað að efla heimaþjónustu í Dalvíkurbyggð töluvert.“, sagði Guðný Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá HSN. „Fólk vill geta verið heima hjá sér lengur sem kallar á öflugri þjónustu í heimahjúkrun en með samþættingunni verður meðal annars hægt að bjóða upp á kvöldþjónustu til heimila öll kvöld vikunnar sem ekki var áður.”
„Það er mjög ánægjulegt að fá að taka þátt í „Gott að eldast“ verkefninu.“, sagði Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar. „Verkefnið býður upp á aukna samvinnu á milli heilbrigðis- og félagsþjónustu, en verkefni eiga að fara á milli félags- og heilbrigðisþjónustu á báða bóga. Þannig verður unnið að því að ein þjónustugátt verði fyrir móttöku þjónustubeiðna til einföldunar fyrir skjólstæðinga og matsteymi skipuleggur þörf á þjónustu.“
Um Gott að eldast
Meginþungi aðgerða í Gott að eldast aðgerðaáætlun fyrir eldra fólk felst í þróunarverkefnum þar sem samþætting félags- og heilbrigðisþjónustu í heimahúsum, nýsköpun og prófanir munu nýtast sem grundvöllur að ákvörðunum um framtíðarskipulag þjónustu við eldra fólk. Markmið er að veita heildræna og skilvirka samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu við fólk í heimahúsi og þannig stuðla að öruggri búsetu eldra fólks sem lengst heima, við sem eðlilegastar aðstæður. Þá er verkefninu ætlað að leiða í ljós kosti og galla þess að samþætta rekstur heimaþjónustu fyrir alla þjónustuþega hennar. Samstarfsaðilum verður veittur skipulagður stuðningur og ráðgjöf við innleiðingu þróunarverkefnanna og eftirfylgni, auk mats á árangri, frá starfsfólki Gott að eldast.
Aðgerðaáætlunin byggist á stjórnarsáttmála ríkis stjórnarinnar og viljayfirlýsingu félags- og vinnumarkaðsráðherra, heilbrigðis ráðherra, fjármálaráðherra, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Landssambands eldri borgara um að auka samstarf varðandi málefni eldra fólks. Þverfaglegt samstarf félags- og heilbrigðisþjónustu er grundvallaratriði til að ná fram samlegðaráhrifum fagþekkingar á hvoru sviði fyrir sig og tryggja þannig betri þjónustu við stækkandi þjóðfélagshóp, m.a. með samþættingu á þjónustu, forvörnum, heilsueflingu og aukinni virkni.