Veitingasala verður á sínum stað á skíðasvæðinu í Skarðsdal á Siglufirði í vetur og rennur allur ágóði hennar beint í barna- og unglingastarf Skíðafélags Siglufjarðar Skíðaborgar. Þetta kemur fram í Facebook færslu félagsins.
Foreldrar og fjölskyldur iðkenda munu sinna veitingasölunni í sjálfboðaliðastarfi líkt og undanfarin ár og sjá þannig til þess að enginn verði bensínlaus í brekkunum. Þar verður hægt að fá sér kaffi, kakó og aðrar veitingar og jafnframt styðja beint við uppbyggingu og starfsemi yngstu iðkendanna.
Í færslu Skíðafélagsins er sérstaklega tekið fram að engin þörf sé á skíðakunnáttu til að leggja sitt af mörkum. Þvert á móti sé tilvalið að taka rúnt í Skarðsdal, grípa með sér heitan drykk og njóta stemningarinnar á svæðinu á sama tíma og gott málefni er stutt.
Ingibjörg Guðlaug, gjaldkeri félagsins, tók myndir þegar foreldrar og iðkendur komu saman til að gera allt klárt fyrir komandi vertíð. Undirbúningurinn ber þess merki að mikil samstaða ríki um starfsemi félagsins og að hlakkað sé til vetrarins í brekkunum í Skarðsdal.







