Embætti landlæknis og skimunarráð hafa skilað heilbrigðisráðherra tillögum að breyttu skipulagi á stjórnun, staðsetningu og framkvæmd skimana fyrir krabbameinum. Landlæknir telur framtíðarlausn á fyrirkomulagi þessara mála nauðsynlega svo skipuleggja megi skimanir til langs tíma.

Alma D. Möller landlæknir og Thor Aspelund, formaður skimunarráðs, kynntu Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra tillögurnar á fundi í ráðuneytinu í dag. Skimunarráð er ráðgefandi fyrir Embætti landlæknis og var skipað í apríl á liðnu ári í samræmi tillögu ráðgjafarhóps sem vann að mótun íslenskrar krabbameinsáætlunar.

Með tillögunum er verið að færa skipulag skimana nær því skipulagi sem mælt er með í leiðbeiningum Evrópusambandsins um skimanir. Tillögurnar fela meðal annars í sér að sett verði á fót sérstök Stjórnstöð skimunar með víðtækt hlutverk sem felist meðal annars í því að skipuleggja og semja um framkvæmd skimana og sjá um innkallanir og upplýsingagjöf til þeirra sem boðaðir eru í skimun. Stjórnstöðin myndi jafnframt sinna rekstri Krabbameinsskrár í umboði landlæknis.

Miðað er við að skimanir verði hluti af almennri og opinberri heilbrigðisþjónustu. Horft er til þess að heilsugæslan fái þar hlutverk í ljósi nálægðar við notendur heilbrigðisþjónustunnar og þekkingarinnar á almennum forvörnum. Að mati landlæknis og skimunarráðs er þetta til þess fallið að styrkja skipulag, utanumhald og eftirlit skimana. Enn fremur er lagt til að sett verði löggjöf um skimanir til að setja verkefninu skýrari farveg, skapa því stöðugleika og tryggja öryggi þátttakenda, gæðaeftirlit og fjármögnun.

Skimunarráð tekur meðal annars fram í áliti sínu að það mæli með fyrirkomulagi þar sem ákvarðanir eru teknar í gagnsæju ferli, niðurstöður séu opnar og birtar reglulega. Ábyrgð á skimun sé samfélagsleg og njóti víðtæks stuðnings.

Fellur vel að krabbameinsáætlun og heilbrigðisstefnu.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir það mikilvægan áfanga að faglegt álit skimunarráðs ásamt tillögum Embættis landlæknis um framtíðarfyrirkomulag skipana fyrir krabbameinum liggi nú fyrir. Í samræmi við tillögurnar muni hún skipa verkefnastjórn um framkvæmd tillagnanna undir forystu heilbrigðisráðuneytisins með aðkomu Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu, Leitarstöðvar Krabbameinsfélags Íslands, Landspítala Krabbameinsskrár, Embættis landlæknis og e.t.v. fleiri aðilum. „Með þessum tillögum er stigið skref í átt að innleiðingu íslenskrar krabbameinsáætlunar og eins falla tillögurnar og markmið þeirra vel að heilbrigðisstefnu til ársins 2030 og þingsályktun um hana sem er til umfjöllunar á Alþingi.

Tillögur Embættis landlæknis ásamt faglegu álit skimunarráðs

Af vef Stjórnarráðsins