Undirritaður hefur verið þríhliða samningur milli Sjúkratrygginga Íslands, VIRK starfsendurhæfingarsjóðs og Janusar endurhæfingar ehf. um samþætta og þverfaglega heilbrigðis- og starfsendurhæfingarþjónustu við ungt fólk á aldrinum 18 til 30 ára með flókinn og fjölþættan vanda. Samningurinn tryggir þjónustu fyrir 80 einstaklinga sem falla undir skilgreiningu NEET, þ.e. sem eru ekki í vinnu, virkni eða námi og þurfa sérhæfða einstaklingsmiðaða þjónustu til að efla virkni og starfsgetu. Gert er ráð fyrir að árlegt fjármagn til þjónustunnar nemi um 330 milljónum króna.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra: „Markmið þessa samnings er skýrt og mikilvægt. Að hjálpa þessu unga fólki til að ná upp virkni og getu. Auka lífsgæði þess og opna fyrir því möguleika til að njóta sín betur í framtíðinni. Hér er stigið mikilvægt skref í samþættingu heilbrigðis- og félagsþjónustu og það er óhætt að segja að við munum öll vinna ef vel tekst til.“
Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra: „Það er mikið fagnaðarefni að geta áfram mætt þessum viðkvæma hópi en fyrr á árinu var einmitt sett í gang sérstakt úrræði í tengslum við heildarendurskoðunina á örorku- og endurhæfingarlífeyriskerfinu sem gengur út á að styðja ungt fólk til atvinnu með sérhæfðum stuðningi.“
Unnið hefur verið að undirbúningi samningsins frá því í byrjun þessa árs. Samningurinn er liður í tilraunaverkefni ráðherranna varðandi aukna samþættingu endurhæfingarþjónustu milli ráðuneyta og endurhæfingarúrræða. Verkefnið er í samræmi við aðgerðaáætlun geðheilbrigðismála til ársins 2027 um að efla gagnreynd starfsendurhæfingarúrræði. Endurhæfingarráði var falið af báðum ráðherrum að leiða undirbúning þessa verkefnis en að því hafa m.a. komið geðheilsuteymi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, meðferðareining lyndisraskana á Landspítala og VIRK. Lögð var áhersla á ítarlega greiningu á þörf fyrir þessa þjónustu og umfang hennar. Liður í undirbúningnum fólst einnig í því að skilgreina nýtt þjónustuferli fyrir hópinn sem um ræðir. Í ferlinu felst m.a. að meta þörf einstaklinga fyrir þessa þjónustu og jafnframt að sérsníða þjónustuna að þörfum þeirra.
Janus starfsendurhæfing mun veita þjónustuna sem er einungis ætluð þeim sem tilheyra eftirfarandi skilgreiningum NEET: a) Ungmennum með þráláta, kvíða- og/eða þráhyggju- og árátturöskun, fælni, þunglyndi, persónuleika- og/eða tilfinningavanda. b) Ungmennum með röskun á einhverfurófi sem jafnframt eru með hamlandi geðræn vandamál. Sérstök áhersla er lögð á náið samstarf og samráð við heilbrigðiskerfið og VIRK sem gefur möguleika á góðri, faglegri, heildrænni nálgun og samfellu í þjónustunni. Þjónustan stendur ungmennunum til boða alla virka daga.
Samningurinn byggir eins og áður sagði á tilraunaverkefni. Er það til tveggja ára og verður árangur verkefnisins metinn á sex mánaða fresti á samningstímanum með það að markmiði að halda áfram að bæta þjónustu við þennan mikilvæga hóp ungmenna.
Mynd/aðsend