Árlegt bátasmíðanámskeið á vegum Síldarminjasafns Íslands stóð yfir vikuna, 25. – 29. september.
Í Slippnum tókust tíu nemendur á við viðgerðir súðbyrtra báta sem og nýsmíði á einum slíkum. Þátttakendur komu víðsvegar af landinu og eru ýmist áhugamenn um bátasmíði, starfsfólk safna eða smiðir.
Hafliði Aðalsteinsson og Einar Jóhann Lárusson sinntu kennslu á námskeiðinu og tryggðu að allir hefðu verkefnum að sinna. Unnið var að því að skipta um umför í byrðingi, bönd og borðstokka – auk þess sem ný umför voru sniðin og lögð í nýsmíðina, sem er endursmíði Hindisvíkurbátsins, ferærings frá 1876.
Handverkið við smíði súðbyrðings var samþykkt á heimsminjaskrá UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf árið 2021 – og því sannarlega þarft að standa fyrir slíkum námskeiðum og tryggja varðveislu handverksins segir á facebooksíðu Síldarminjasafnsins.