Stuttu eftir að mínir foreldrar fluttust til Siglufjarðar frá Sauðárkróki, af Sæmundargötu 1 er þau byggðu við sjóinn á króknum hér forðum, kom hópur kvenna heim í Túngötu 10 Siglufirði. Spurðu þær mömmu hvort hún vildi vera í nýstofnuðu Kvenfélagi Sjúkrahúss Siglufjarðar um byggingu og rekstur nýs Sjúkrahúss á Siglufirði. Ég man hún sagðist reikna með því, að maðurinn sinn myndi samþykkja þetta, er hann kæmi í land. Þá gæti orðið af þessu.

Eitt af markmiðum félagsins, var að kaupa sand úr Haganesvík. Svo áttu bifreiðastjórar á Siglufirði að nota frívakt sína, til að sinna sandöflun fyrir kvenfélagið, á sanngjörnu verði, eftir vigt, (Bæjarvigt við Hafnarbryggju) sem minniháttar hagkvæm uppbótarvinna. Taka átti sandinn sem allra efst í fjörunni því hann hafði kannski minna salthlutfall og var léttastur.

Net tímaritið Siglfirðingur segir þann  24/11/2013

“Í ávarpi formanns, Ólafíu Önnu Þorvaldsdóttur, kom fram, að kvenfélagið hafi verið stofnað 22. nóvember 1953 og stofnfélagar verið 32 konur. Samþykktir hafi verið tveir fastir fjáröflunarliðir á ári, hlutavelta að vori og basar að hausti. Tilgangur félagsins hafi verið sá sami frá upphafi, að kaupa lækningatæki og búnað sem gagnaðist sjúkrahúsinu og þeim sem þangað sæktu þjónustu. Á fyrstu árum félagsins hafi það einnig komið að byggingu sjúkrahússins með áþreifanlegum hætti, lagt til þess fé og átt fulltrúa í byggingarnefnd. Kvenfélagið væri búið að vera samofið starfsemi sjúkrahússins frá stofnun og sporin lægju víða.”

Dag einn komu þær Magðalena Hallsdóttir og Erla Svanbergsdóttir til mín, er ég var skríðandi á götunni heima. Spurðu þær mig hvort ég gæti bundið hnútinn á spotta fyrir þær, sem trillurnar í dokkinni væru bundnar fastar með. Ég hélt það nú. Hafði oft farið niður á bryggju, bundið trilluna hans pabba míns, er hann kom í land úr róðri.

Stúlkurnar ætluðu nefnilega að gera stóra holu efst á alla sandbingina á planinu við Sjúkrahúsið. Fara svo þangað með vatnsslöngu, til að þvo sjávar saltið úr sandinum. Slangan þyrfti svo að vera bundinn við stein, svo hún sprangaði ekki út um allt.

Báðu þær mig að binda þennan hnút utanum ávalan steininn, með spottann við slönguna, sem þær notuðu við þvottinn.

Eftir að mamma gaf leyfi, að ég skriði alla leið, út á sjúkrahúsplan með þeim stelpunum, í þetta verkefni, var hafist handa og farið að þvo sandinn, sem þangað var kominn.

Dag einn er ég var að leika mér neðarlega á Eyrargötunni, kallaði Georg Fanndal kaupmaður á mig. Spurði hann hvort ég væri að hjálpa stelpunum, að þvo sand sem færi í nýja Sjúkrahús Siglufjarðar. Ég jánkaði því. Komdu og sjáðu hvað ég var að fá af nýjum vörum fyrir tveimur dögum.

Þetta er sex millimetra steinbor og þú getur látið bora gat í gegnum steininn og bundið svo slönguna við steininn með því að þræða spottann í gegnum gatið.

Kvaðst ég guttinn þurfa að fá leyfi og pening hjá pabba, strax á morgun, til að kaupa þetta tækniundur sem holaði steininn, svo hægt væri að hreinsa sandinn í Sjúkrahúsið vel og rækilega.

Eftir að ég hafði fengið peninginn, sem þurfti fyrir kaupunum, fór ég niður í Slipp. Hitti þar Birgi Guðlaugsson. Bað ég hann að bora gat í gegnum stein, er ég hafði meðferðis, með bornum sem ég keypti til verksins. Hann Birgir færði mer svo steininn heim, gegnum boraðan, viku seinna.

Stelpurnar voru yfir sig hrifnar að framtaki okkar strákanna í þessu verkefni. Þessi vel þvegni sandur var svo déskoti eftirsóttur af bæjarköllunum á vetrum, til að hálkuverja gangstiga og götur. Þótti ansi gott að fá hreinan sand til þess. Það var nú kannski einhvern veginn borgað til baka.

Mamma fór oft á Kvenfélagsfund Sjúkrahússins, þar sem Siglfirðingurinn Helgi Hafliðason arkitekt hússins ræddi við stelpurnar um hönnun hússins og gang mála. Svo sem ljósa liti innan sem utan.

Kvenfélag Sjúkrahúss Siglufjarðar var svo með spyrðu klúbb, kökubasara, og föndurbasar,  já og BINGÓ til að borga bifreiðarstjórunum sinn hlut,  já og til að fjármagna byggingu síns hluta, í Sjúkrahúsinu. Stelpurnar áttu líka að sjálfsögðu fulltrúa í byggingarnefnd Sjúkrahúss Siglufjarðar.

Einn alvarlegur galli var þó á byggingunni, sem hindraði mjög oft, heilsubata fólks þarna. Það var að geislahiti, væri settur í loftið, til að hita allt rýmið. Nú til dags er hiti settur alstaðar alfarið í gólf eða neðst á vegg. Svo bætt stundum við viftu í loft til að hafa hreyfingu á öllu saman.

Þegar ég var 15 ára og ók um á skellinöðru og fór inn á Sjúkrahús Siglufjarðar, til læknis, eða að heimsækja ættingja, eða vini, þá fékk ég alltaf blóðnasir. Því það var svo lítill loftþrýstingur í húsinu. Seinni ár lá mér alltaf við yfirliði eða aðsvifi vegna loftleysis þarna inni. Maður óttast bara að starfsfólk oxiderist, þegar það kemur út eftir vinnu, og verði eins og þegar, kúm er hleypt út, fyrst á vori.

Það er sveitarfélagi til skammar og ráðhúsi Siglufjarðar, að þegar viðbygging var reist, hér um árið, við nýja Sjúkrahús Siglufjarðar, að stelpurnar voru ekki með fulltrúa í byggingarnefnd  hússins eins og forðum.

Þetta var sko algjör nýbúa vanþekking ráðamanna.

Félagið Sjálfsbjörg Siglufirði sem er elsta félag fatlaðra einstaklinga á landinu, hefur alltaf verið að safna fyrir endurhæfingartækjum sem þau kaupa og gefa svo endurhæfingardeild Sjúkrahússins á Siglufirði.

Halla Haraldsdóttir listakona gerði þarna á staðnum svo stóra mynd, sem hún vann fyrir opnunarvígslu  Sjúkrahúss Siglufjarðar, sem er staðsett við aðalinngang hússins (Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar).

Bæði faðir minn Jóhann Sigurðsson og bróðir minn Njörður Jóhannsson unnu við byggingu Sjúkrahússins hið nýja á sínum tíma. Pabbi sem starfsmaður hjá Vélaverkstæði Jóns og Ragnars Siglufirði. Bróðir minn Njörður sem múrari hjá Sigurði Magnússyni múrarameistara.

Til að athuga hvort seigju gæði sements pokans stæðust gæðakröfur, var hann opnaður og hreinn lófinn manns lagður laust ofaná efsta lagið í pokanum. Hendi lyft svo rólega upp fyrir axlarhæð og gáð neðan í lófann á sér, hvað tolldi mikið fast sement neðan í lófanum. Þar með sást viðloðunarhæfnin (seigjan) greinilega. Það nefnilega þurfti að bindast vel saman, vatnið, sandur, og sement.

Það var sennilega Guðjón Samúelsson sem var húsameistari ríkisins frá 1920  sem teiknaði gamla Sjúkrahúsið á Siglufirði. Einnig Sundhöll Siglufjarðar að mig minnir. Sjúkrahúsið gamla var tekið formlega í notkun 1. desember 1928  Gamla húsið var sirka 200 fermetrar að stærð, Fyrsti yfirlæknir þar var Steingrímur Eyfjörð Einarsson. Steingrímur þessi vildi alls ekki að ég væri bólusettur með svokölluðum barnasprautum á þessum tímum og er ekki enn sprautaður barnasprautunum og þessu öllu.

En þann 15. desember 1966 fór fram vígsla á hinu nýja Sjúkrahúsi Siglufjarðar. Hafði þá gamla lokið alfarið hlutverki sínu, og beið niðurrifs vegna frekari bygginga framkvæmda, svo sem bifreiðageisla.

Langþráð viðbygging sem var ráðgerð í upphafi við nýja Sjúkrahúsið, var svo gerð í austurátt og tekin í notkun þann 14. október 2009  Þar tengir Helgi Hafliðason Arkitekt hússins saman gamla og nýja tímann, með nútíma svölum í blá-horni þess.

Á síðunni SK Siglo. 14.10.2009 segir orðrétt.

„Árið 2007 undirritaði þáverandi Heilbrigðis- og tryggingarmálaráðherra Siv Friðleifsdóttir verksamning við byggingarfélagið Berg ehf. um viðbyggingu við húsnæði Heilsugæslunnar.
Viðbyggingin, sem er austan við aðalbygginguna er liðlega 1000 fermetrar að stærð, á tveimur hæðum.“ 

Og síðar segir: „Elín Jónasdóttir, fædd 16. maí 1908, sem er elsti Siglfirðingurinn eða 101 árs gömul. Elín vígði viðbygginguna með því að klippa á borðann með Álfheiði Ingadóttur heilbrigðisráðherra. Ráðherrann skaut að blaðamanni  „þau bitu vel“ (skærin)“.

Það var mikið sport, að fá far með nýjustu vörubílunum svo sem Scania Vabis eða Volvónum hanns Sigga frá Nesi á F 20 í Haganesvík að sækja sand. Ég guttinn fór eina svona ferð að minnsta kosti. Bara til að athuga hvernig menn keyrðu vörubílana í bröttum brekkum sem réttast yfir Siglufjarðarskarð.

Mótorbremsan hægra megin var sett upp um eitt pall frá normal vinnslu, á meðan ekið var upp stuttar erfiða brekkur, en tekið af rétt áður en komið var upp það erfiðasta. Þarna var þá extra olíueldsneyti sett inn á olíuverkið og drag vörubílsins meira upp á við. Við þetta var vél í heitasta lagi í stutta stund. Varð svo að nota þetta trix með varúð. Þetta máttu aðeins varkárir bifreiðarstjórar vita. Það kenndi hann mér, hann Gísli Sigurðsson í beinu ferðunum Siglufjörður Reykjavík hérna forðum. En Gísli hafði setið námskeið hjá Mercedes Benz umboðinu varðandi akstur við erfið skilyrði.

Ef að sandur úr Faxaflóanum, hefði fengið sömu gæði við hreinsun, og sandurinn sem Kvenfélagið á Siglufirði hreinsaði á sínum tíma forðum, þá væri ekki svona mikið af steypuskemmdum, í steinsteyptum húsum hérlendis eins og raunin ber vitni um.

Texti: Viðar Jóhannsson Vélfræðingur
Mynd af Sjúkrahúsinu á Siglufirði: Af netinu
Mynd af Þorsteini og Helga Hafliðasyni: SK Siglo.is  
Mynd af Elínu Jónasdóttur: SK Siglo.is  
Myndir: Síldarminjasafn Íslands
Mynd Landakort: Loftmyndir EHF
Heimildir: Siglfirðingur.is þann 24.11 2013
Heimildir: sksiglo.is | Fréttir á landsvísu | 14.10.2009

Forsíðumynd: Trölli.is