Nú gefst íbúum Siglufjarðar og öðrum tækifæri til að senda inn umsagnir vegna áforma Samkaupa um að byggja verslunarrými í miðbæ Siglufjarðar, nánar tiltekið þar sem tjaldsvæðið er staðsett.

Sendar hafa verið inn 6 umsagnir nú þegar. Sjá: HÉR

Senda inn umsagnir og skoða fylgigögn: HÉR

Bæjarstjórn Fjallabyggðar samþykkti á fundi sínum þann 16. október 2024 að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Siglufjarðar skv. 41. gr skipulagslaga nr. 123/2010.

Tillagan var kynnt á opnum íbúafundi þann 6. nóvember sl. og er markmið hennar að útbúa nýja lóð fyrir verslunarkjarna sem mun m.a. hýsa nýja verslun Samkaupa hf. ásamt öðrum verslunum og/eða þjónustu.

Í svari Sigríðar Ingvarsdóttur við fyrirspurn Trölla.is vegna mögulegrar íbúakosningu vegna breytinga á deiliskipulagi í miðbæ Siglufjarðar vegna uppbyggingu Samkaupa segir hún meðal annars.

“Í raun og veru getur sveitarstjórn alltaf ákveðið að setja mál í íbúakosningu líkt og gert var varðandi staðarval kirkjugarðs í Ólafsfirði”.

Samþykktir Fjallabyggðar vísa í sveitarstjórnarlögin, en í þeim er kveðið á um eftirfarandi:

108. gr. Frumkvæði íbúa sveitarfélags.
Ef minnst 10% af þeim sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi óska borgarafundar skv. 105. gr. skal sveitarstjórn verða við því svo fljótt sem unnt er. Um framkvæmd borgarafundar fer eftir ákvæði 105. gr.
Ef minnst 20% af þeim sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi óska almennrar atkvæðagreiðslu [meðal allra íbúa sveitarfélagsins] 1) skv. 107. gr. skal sveitarstjórn verða við því eigi síðar en innan árs frá því að slík ósk berst. Sveitarstjórn er heimilt að ákveða hærra hlutfall í samþykkt um stjórn sveitarfélags en þó aldrei hærra en þriðjung þeirra sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi. Sveitarstjórnin á ákvörðunarvald um framkvæmd viðkomandi viðburðar og þá spurningu sem borin verður upp sé um að ræða almenna atkvæðagreiðslu meðal íbúa sveitarfélagsins. Um framkvæmd almennrar atkvæðagreiðslu meðal íbúa sveitarfélags fer eftir ákvæði 107. gr.

https://www.althingi.is/lagas/nuna/2011138.html