Nýverið var til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2023-2038, mál nr. 112/2023. Stefna Húnaþings vestra er að veita umsagnir um þau þingmál sem sveitarfélagið varða og fá mál eru þar viðameiri en samgönguáætlun. 

Í umsögn sveitarfélagins um drögin eru dregin fram helstu áhersluatriði sveitarfélagsins og vísað í aðrar áætlanir sem tengjast málaflokknum, svo sem Samgöngu- og innviðaáætlun Norðurlands vestra og Áfangastaðaáætlun Norðurlands.

Í drögum að samgönguáætlun eru á gildistíma hennar tilgreind nokkur verkefni í Húnaþingi vestra, svo sem endurbygging Vatnsnesvegar, sjóvarnir við Hafnarbraut á Hvammstanga og við Borðeyrartanga, endurnýjun suðurgarðs Hvammstangahafnar og dýpkun smábátahafnar. Er þeim áformum öllum fagnað en jafnframt bent á nokkur atriði þeim til viðbótar.

Meðal þess sem lögð er áhersla á í umsögninni er:

  • Frekari flýting framkvæmda við Vatnsnesveg.
  • Stóraukið fjármagn í tengivegapott svo ráðast megi í átak í lagningu bundins slitlags á tengivegi og þar með þá vegi í sveitarfélaginu sem tilgreindir eru í Samgöngu- og innviðaáætlun Norðurlands vestra, þ.e. Víðidalsvegur, Miðfjarðarvegur frá Staðarbakka að Brekkulæk og  Innstrandarvegur.
  • Framkvæmdum við sjóvarnir á Borðeyri verði flýtt.
  • Stækkun áningarstaðar við gatnamót hringvegar og Hvammstangavegar (Norðurbraut).
  • Breytingar á vegstæði við Hvítserk og að skilgreiningu vegarins niður að bílaplaninu verði breytt svo hann falli undir reglur Vegagerðarinnar um vetrarþjónustu.

Í drögum samgönguáætlunar er dregin upp metnaðarfull framtíðarsýn fyrir byggðir landsins. Meðal annars kemur fram áhersla á að lífsgæði fólks séu ekki síst fólgin í því að fólk geti búið sér heimili þar sem það helst kýs og njóti sambærilegra innviða hvar á landinu sem er. Í umsögn Húnaþings vestra er bent á mikilvægi þess að saman fari hljóð og mynd í markmiðasetningu og ráðstöfun fjármuna til að unnt verði að ná settu marki.

Umsögnin í heild sinni er aðgengileg hér.