Bæjarstjórn Fjallabyggðar samþykkti á fundi sínum þann 30. maí að heimila T.ark arkitektum f.h. Samkaupa hf. og KSK eigna ehf. að vinna breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Siglufjarðar með það að markmiði að útbúa nýja lóð fyrir verslunarkjarna sem mun m.a. hýsa nýja verslun Samkaupa hf. ásamt öðrum verslunum og/eða þjónustu.

Tillagan var samþykkt til auglýsingar á fundi bæjarstjórnar 29. október og kynnt á opnum íbúafundi þann 6. nóv. sl. Athugasemdafrestur er frá og með 13. nóvember 2024 til og með 2. janúar 2025.

Alls bárust skipulagsgátt 32 umsagnir vegna fyrirhugaðrar Samkaupsbyggingar og mun Trölli.is birta allar innsendar umsagnir næstu vikurnar.

Sjá fyrri umsagnir: HÉR

Tuttugasta og sjöunda umsögn birt 02.01.2025.

Stefán Júlíusson

Samkaup hafa komið með tillögu að byggingu nýs verslunarrýmis á Siglufirði.
 
Þessar fréttir komu með ánægjulega á óvart. Sérstaklega tillagan um að byggja miðsvæðis á Siglufirði.
 
Svæðið er í dag notað sem snjógeymsla á veturna og sem tjaldsvæði á sumrin. Við sem búum hér, getum ekki notað svæðið sem útivistarsvæði vegna þess.
 
Með þéttingu byggðar, mun myndast þéttur bæjarkjarni þar sem stór hluti verslunar er á einum stað og í göngufæri. Þetta mun auka gæði allra heilsársíbúa Siglufjarðar.
 
Samkaup vilja stækka matvöruverslunina og að öllum líkindum auka vöruúrval. Netverslun Krónunnar mun aðeins styrkjast ef vöruúrval eykst ekki. Að lokum mun matvöruverslunin minnka vöruúrval og verða dýrari.
 
Ég vil gjarnan versla í heimabyggð.
 
Með byggingunni mun saga Siglufjarðar ekki gleymast enda gerist það ekki með byggingu einnar byggingar.
 
Ferðamenn munu halda áfram að koma til Siglufjarðar og gista þótt svo að verslunarhús bætist við í miðbænum. Verslunin er aukin þjónusta við þá sem eykur jákvæða upplifun.
 
Mér finnst vera synd að núverandi rekstaraðili Sigló Hótel, Keahótel ehf., minnast lítið eða ekkert á þá möguleika sem Siglufjörður bíður ferðamönnum upp á. 
 
Við búum ekki á safni heldur í bæjarfélagi sem við eigum stöðugt að þróa á jákvæðan hátt fyrir alla íbúa þess og svo ferðamann sem vilja heimsækja okkur.
 
Styrking miðbæjarins með aukinni verslun er hluti af því.
 
Áfram Sigló!

Mynd/úr myndasafni Trölla