Bæjarstjórn Fjallabyggðar samþykkti á fundi sínum þann 30. maí að heimila T.ark arkitektum f.h. Samkaupa hf. og KSK eigna ehf. að vinna breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Siglufjarðar með það að markmiði að útbúa nýja lóð fyrir verslunarkjarna sem mun m.a. hýsa nýja verslun Samkaupa hf. ásamt öðrum verslunum og/eða þjónustu.
Tillagan var samþykkt til auglýsingar á fundi bæjarstjórnar 29. október og kynnt á opnum íbúafundi þann 6. nóv. sl. Athugasemdafrestur er frá og með 13. nóvember 2024 til og með 2. janúar 2025.
Alls bárust skipulagsgátt 32 umsagnir vegna fyrirhugaðrar Samkaupsbyggingar og mun Trölli.is birta allar innsendar umsagnir næstu vikurnar.
Sjá fyrri umsagnir: HÉR
Tuttugasta og fyrsta umsögn birt 30.12.2024.
Vigdís Ósk Häsler Sveinsdóttir
Siglufjörður,
Undirrituð vill koma á framfæri athugasemdum um auglýst deiliskipulag miðbæjar Siglufjarðar sem samþykkt var til auglýsingar á fundi bæjarstjórnar 29. október sl., og kynnt á opnum íbúafundi þann 6. nóvember sl.
Í upphafi er vert að undirstrika að skipulagssvæðið sem um ræðir, miðsvæði Siglufjarðar, býr yfir fegurð og sérkennum sem íbúar Fjallabyggðar mega vera stoltir af. Allir íbúar hljóta því að hafa skoðanir á því hvernig varðveita og styrkja skuli slík miðsvæði, bæði út frá fagurfræðilegum sjónarmiðum sem og hagræði í þjónustu við íbúa, enda er Ráðhústorgið hjarta miðbæjar Siglufjarðar og gegnir mikilvægu hlutverki sem aðal samkomustaður bæjarins.
Því eru það eðlileg viðbrögð að íbúar hafi sterkar skoðanir á svo umfangsmiklum breytingum á ásýnd miðsvæðisins og hverfisvernd. Það sætir því furðu að sveitarstjórn skuli ekki leitast betur við að tryggja möguleika íbúa til þess að taka þátt í ferlinu og hafa áhrif líkt og ákvæði X. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 gera ráð fyrir en þar er að finna ákvæði um almennt og víðtækt samráð sveitarstjórna við íbúa sveitarfélaganna um opinber málefni. Sé það vilji bæjarfulltrúa og samfélagsins að koma í veg fyrir að uppbygging miðsvæðis Siglufjarðar verði uppspretta að áralöngum deilum er mikilvægt að íbúar fái að koma að hugmyndavinnu þess. Því er tilefni til þess að bæjarstjórn efni til hönnunarsamkeppni um skipulag miðbæjarins á skilgreindu svæði samkvæmt aðalskipulagi sem er hluti af miðsvæði Siglufjarðar. Í framhaldinu yrði haldinn kynningarfundur, í báðum þéttbýliskjörnum, þar sem vinningstillagan er kynnt og aðilum gefinn kostur á athugasemdum og umræðum. Ekki þarf að líta lengra til baka en til þess þegar umtalsverður styr stóð um uppbyggingu miðbæjar Árborgar á árunum 2012-2023.
En með vísan til tillögunnar, þá gera ákvæði skipulagslaga ráð fyrir að þegar unnið er deiliskipulag í þegar byggðu hverfi skuli leggja mat á varðveislugildi svipmóts byggðar og einstakra bygginga sem fyrir eru. Ekki sé hægt að glöggva sig á af þeim gögnum sem liggja fyrir til samráðs að það hafi verið gert, heldur miklu fremur má leiða af auglýstri tillögu að hún virðist eingöngu hverfast um eina matvöruverslun en ekki heildarmynd miðbæjarins út frá aðalskipulagi. Í greinargerð með aðalskipulagi kemur fram að miðsvæði Fjallabyggðar, þá sérstaklega á Siglufirði, býr að sérkennum sem vert er að byggja tillögugerð að framtíðaruppbyggingu svæðisins á.
Það er álit undirritaðrar að deiliskipulagið sé í ósamræmi við aðalskipulag Fjallabyggðar þar sem segir að við uppbyggingu miðbæjar skuli stefnt að skjólgóðri byggð með bæjareinkennum og bæjarbrag. Ekki sé litið til þeirra sérákvæða um miðsvæði sem koma fram í greinargerð með aðalskipulagi Fjallabyggðar um miðsvæði Siglufjarðar þar sem segir að núverandi staða er viðmið um yfirbragð byggðar. Hér er verið að vísa til greinar 3.2.2., um verndun sérkenna eldri byggðar og að „meiriháttar breytingar á nýtingu og yfirbragði kalla á formlega breytingu á aðalskipulagi.“ Þá segir í ákvæði 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga að við breytingu á deiliskipulagi skal lagt mat á varðveislugildi svipmóts byggðar og einstakra byggingar sem fyrir eru. Þannig samrýmist deiliskipulagstillagan ekki ákvæðum aðalskipulags um nýtingu og yfirbragð og úr því misræmi verður ekki bætt nema með breytingu á aðalskipulagi.
Virðingarfyllst, Vigdís Häsler lögfr.
Forsíðumynd/úr myndasafni Trölla.is