Húnaþing vestra hefur, líkt og flest ef ekki öll sveitarfélög landsins, birt fundargerðir stjórna, ráða og nefnda sveitarfélagsins á heimasíðu sinni um alllangt skeið. Hingað til hefur birtingin verið “handvirk” að því leyti að afrita hefur þurft hverja og eina fundargerð úr fundargerðarkerfinu – en fundargerðir eru færðar rafrænt í þar til gert kerfi – inn á heimasíðuna. 

Nýlega var tekin í notkun viðbót við fundargerðarkerfið sem leyfir fundarmönnum að undirrita fundargerðir með rafrænum hætti og einnig getur fundarritari sent fundargerðirnar beint úr kerfinu yfir á heimasíðuna. 

Þessari viðbót fylgja ýmsir aðrir möguleikar. Meðal annars geta áhugasamir nú fylgst með ákveðnum málanúmerum og fá þá tilkynningu þegar mál sem þeir hafa áhuga á er tekið aftur á dagskrá. Einnig býður kerfið upp á þann möguleika að hægt sé að birta fylgigögn mála á vefnum. Þegar mál er sett á dagskrá fundar fylgja því langoftast einhver gögn fyrir fundarmenn til að glöggva sig á málavöxtum. Þessi gögn er nú hægt að láta fylgja með málunum út á heimasíðuna. 

Eðli málsins samkvæmt er ekki leyfilegt að setja hvaða gögn sem er út á heimasíðuna og af því tilefni hefur Húnaþing vestra líkt og mörg önnur sveitarfélög sett sér verklagsreglur um birtingu slíkra gagna. Reglurnar voru samþykktar af sveitarstjórn Húnaþings vestra þann 9. janúar 2025.

Reglurnar má finna hér