Halldóra og Guðný eru meðal kennara sem halda skáldneistanum á lífi í skólanum.
Halldóra og Guðný eru meðal kennara sem halda skáldneistanum á lífi í skólanum. Mynd/Grunnskóli Fjallabyggðar

Tveir vinningshafar af þremur í Vísubotni, vísnasamkeppni grunnskólanema, eru íbúar Fjallabyggðar og af níu vísum úr keppninni sem birtar eru í nýjasta hefti Stuðlabergs eru fjórir botnar frá nemendum grunnskólans þar. Hagmælska er þó ekki inntökuskilyrði í skólann að sögn Erlu Gunnlaugsdóttur skólastjóra og þó hún sé í kvæðamannafélaginu í Fjallabyggð þakkar hún sér ekki þennan árangur heldur bendir á kennara. Ég byrja á að heyra í Guðnýju Róbertsdóttur.

„Það hefur alltaf verið mikill áhugi hér fyrir norðan fyrir kveðskap og hann hefur smitast inn í grunnskólann. Því hefur verið vilji til að taka þátt í vísnasamkeppni grunnskólanema,“ segir Guðný sem hefur kennt börnum á yngsta stigi við Grunnskólann í Fjallabyggð í mörg ár. „Við erum nokkrir kennarar viðloðandi Þjóðlagasetur Bjarna Þorsteinssonar og Kvæðamannafélagið Rímu í Fjallabyggð sem höfum áhuga á kvæðamennsku og ást á góðum ljóðum. Þetta er ekkert í stefnu skólans en áhuginn smitar út frá sér því okkur finnst þetta svo skemmtilegt. Fyrir þorrablótið kennum við börnunum Yfir kaldan eyðisand, Höldum gleði hátt á loft, Hér er ekkert hrafnaþing og Austankaldinn á oss blés, lög sem koma sjálf krafa upp í hugann. Svona gerist þetta bara.“

Guðný segir aðallega eldra fólk í kvæðamannafélaginu en þó séu tvö börn í 7. bekk byrjuð að kveða með, Víkingur og Kolfinna. „Fyrir þremur árum kom upp sú hugmynd að taka upp kvæðalög og varpa þeim úr kirkjuturninum út yfir bæinn. Þetta efni var spilað tvisvar á dag í júlímánuði. Meðal söngvara voru þrjár ungar stelpur sem sungu Uppi í háa hamrinum. Það er ýmislegt brasað hér!“

Skólafólkið fylgist með komu fuglanna á vorin og nú eru börnin í 1. og 2. bekk að æfa fallegt kvæðalag, Fuglinn undir bjarginu sem Ólína Þorvarðardóttir syngur á DVD-diski, útgefnum af Þjóðlagasetrinu, að sögn Guðnýjar. „Þó Þjóðlagasetrið sé lokað að vetrinum eru nemendur skólans alltaf velkomnir þangað þegar þess er óskað og þeir fara líka reglulega í Ljóðasetrið þar sem Þórarinn Hannesson, stofnandi þess, tekur vel á móti þeim. Þetta hefur allt áhrif.“ Þar sem Guðný hafði fengið aðvörun frá Erlu skólastjóra um blaðaviðtalið bað hún börnin að nota síðasta korter skóladagsins til að setja saman vísu. „Ég hjálpaði þeim aðeins en mest er frá þeim,“ segir hún. Svona er vísan:

Veiran hún er ekki góð

Allt að fara í klessu.

Við erum nú að verða óð

yfir öllu þessu.

Tvær línur voru komnar í næsta erindi en ekki vannst tími til að ljúka því.

Bráðum batnar ástandið

Börnin koma saman.

„Við bjóðum lesendum að botna en börnin ætluðu að láta þriðju línu enda á frið og fjórðu línu á gaman!“ segir Guðný að lokum.

Nýbúar góð skáld

Halldóra Elíasdóttir er kennari á unglingastigi í Grunnskóla Fjallabyggðar. Hún segist hafa alist upp við kveðskap, bæði heima og í sveitinni hjá afa og ömmu í Langhúsum í Fljótum. „Ljóðagerð liggur vel fyrir mörgum krökkum hér,“ segir Halldóra og minnist á ljóðakeppni sem Þórarinn í Ljóðasetrinu efni árlega til. Þar sé einkum um órímuð ljóð að ræða, ort út frá málverkum og myndum, stelpur í 8. til 10. bekk hafi verið í meirihluta vinningshafa í ár. Nýbúar fái að skrifa ljóðin á sínu tungumáli sem svo séu þýdd. „Mörg góð ljóð hafa komið frá þeim hópi,“ lýsir hún. Halldóra kveðst líka leggja vísnasamkeppni grunnskólanna fyrir í öllum bekkjum, þar eigi að botna fyrriparta og sumir nemendur hafi áhuga á að gera það vel. „Ég hef hvatt þá nemendur áfram. Við fengum sérstakar þakkir frá Menntamálastofnun núna. Það var ánægjulegt.“

Tekið af vef Fréttablaðsins og Grunnskóla Fjallabyggðar