Ruv.is greindi svo frá að í gærkvöldi var unglingur handtekinn á Siglufirði grunaður um fjölda innbrota, þjófnaða og skemmdarverka í bænum undanfarna daga. Hann hefur gengist við brotunum.
Lögreglan á Tröllaskaga hefur unnið af alefli við rannsókn brotanna undanfarið og yfirheyrðu mann vegna þeirra á föstudag. Sá neitaði sök þannig að lögregla færðist ekki nær lausn gátunnar.
Í gærkvöldi fékk lögregla ábendingu um að lýsingar vitna gætu áttu við ungan mann, eða ungling, á Siglufirði. Hann flúði undan lögreglu en náðist skömmu síðar og í kjölfarið ræddu lögreglumenn við foreldra hans. Jafnframt fundust að sögn lögreglu sönnunargögn sem bendla hann við málin.
Unglingurinn viðurkenndi brot sín við skýrslutöku, eftir að fulltrúi frá barnaverndaryfirvöldum hafði verið kallaður til. Hann gekkst við að hafa verið einn að verki í öllum tilfellum.
Lýsingar hans af atburðum koma heim og saman við allar þær upplýsingar sem lögregla hefur fengið. Ungi maðurinn hefur verið látinn laus en hann hefur náð sakhæfisaldri, sem er fimmtán ár á Íslandi.