Uppbygging og valdefling er sósíalísk byggðastefna. Haraldur Ingi Haraldsson skipar fyrsta sæti Sósíalistaflokksins í Norðausturkjördæmi.

Byggðastefna undanfarinna áratuga hefur í raun verið byggðaeyðing.  Auður, pólitískt og efnahagslegt vald hefur streymt frá landbyggðinni.  Gegn þessu langa hnignunarskeiði teflir Sósíalistaflokkurinn fram sósíalískri byggðastefnu sem er stefna uppbyggingar með félagslegum lausnum og valdefling byggðanna.

Við áttum heilbrigðiskerfi sem náði til landsins alls.  Konur gátu fætt börn sín I heimabyggð og þurftu ekki að ferðast yfir langan veg til þess.  Þetta kerfi var brotið niður.  Við viljum byggja upp gjaldfrjálst og ríkisrekið heilbrigðiskerfi á landsbyggðinni og nýta okkur tækniframfarir til þess. Við viljum að konur geti fætt börn sín í heimabyggð.  Það er sósíalísk byggðastefna.

Vegakerfið okkar er hefur verið almannagæði að nánast öllu leiti  en nú standa fyrir dyrum ákvarðanir núverandi stjórnvalda um rótæka kerfisbreytingu í anda nýfrjálshyggjunnar þar sem búast má við að allar stórframkvæmdir verði einkavæddar og vegatollar settir á.  Við viljum byggja upp gjaldfrjálst vegakerfi kostað af ríkisvaldinu þar sem öllum landsmönnum er tryggð frjáls för.  Við höfnum því að ný jarðgöng í Norðausturkjördæmi innheimti vegatolla.  Það er sósíalísk byggðastefna. 

Húsnæðiskerfið er sniðið fyrir fjármagnseigendur og verktaka.  Þar er búin til skortur, blásin upp bóla og verðið sprengt upp úr öllu valdi.  Húsnæðis- og leigukostnaður er sligandi baggi á almenningi.  Við viljum byggja þrjátíuþúsund íbúðir á tíu árum í félagslegu kerfi þar sem íbúarnir njóta hagræðisins í stórlækkuðum húsnæðiskostnaði.   Landsbyggðin tekur fullan þátt í þeirri uppbyggingu.  Það er sósíalísk byggðastefna.

Kvótakerfið hefur dregið máttinn úr byggðunum.  Dregið auð og völd þaðan í hendur fámennrar auðstéttar og valdið djúpstæðri spilling í stjórnmálastéttinni. Við viljum kvótann heim.  Leggja niður núverandi kerfi og færa valdið yfir auðlindum sjávar út í byggðarnar. Á lýðveldistíma höfum við háð þrjú þorskastríð og náð fullum yfirráðum  yfir Íslandsmiðum en tapað  þeim í hendur innlendrar auðstéttar.  Við skulum endurheimta þau yfirráð fyrir þjóðina og fyrir landsbyggðina.  Það er sósíalísk byggðastefna.

Sósíalísk byggðastefna er uppbygging velferðarkerfisins á landbyggðinni með félagslegum lausnum.  Sú uppbygging miðast við þarfir fólks, vonir og væntingar og er á þeirra forsendum.  Sósíalísk byggðastefna er að efla pólitískt og efnahagslegt vald byggðanna.

Sósíalistaflokkurinn er landsbyggðarflokkur og Sósíalísk byggðastefna er eitt af lykilstefnumálum flokksins.


Aðsent.