Úrslit í jólaskreytingarsamkeppni Dalvíkurbyggðar, DB-blaðsins og fyrirtækja í Dalvíkurbyggð birtust í jólablaði DB-blaðsins sem kom út í gær, 17. desember. Eftirfarandi texti er að mestu sá sami og í blaðinu birtist á vef Dalvíkurbyggðar.

Jólaskreytingarkeppni Dalvíkurbyggðar var endurvakin í ár eftir níu ára hlé. Hún er haldin í samstarfi DB blaðsins, Dalvíkurbyggðar og fyrirtækja í Dalvíkurbyggð.
Í dómnefnd sátu Guðrún Inga Hannesdóttir, fyrir hönd DB blaðsins, Íris Hauksdóttir, fyrir hönd Dalvíkurbyggðar og Júlíus Júlíusson fyrir hönd íbúa.

Dómnefndin hvetur alla íbúa að taka sér bíltúr um allt sveitarfélagið því allstaðar er eitthvað fallegt að sjá.
Það fer ekki framhjá neinum að aldrei hefur jafn mikið verið skreytt í byggðarlaginu og dómgæslan eflaust aldrei verið flóknari. Lagt var af stað kl. 08:00 tvo morgna í liðinni viku og keyrt um allt sveitarfélagið. Ómetanlegt var að hafa Júlla með í för þar sem hann er reyndur á þessu sviði og kom með mælieiningakerfi sem auðvelt var að fylla inn í.

A– hús sem eru með x-factorinn, eitthvað alveg sérstakt, mikil vinna lögð í verkið og ekkert skilið eftir óskreytt.
B– falleg og stílhrein hús þar sem vandað er til verks og falleg á að líta.
C– eitthvað fallegt gert en vantar upp á.
D– ein sería í glugga eða minna.

Veitt eru verðlaun fyrir fyrsta til þriðja sæti fyrir fallegustu skreyttu húsin, fallegasta gluggann, jólalegasta húsið og fallegasta tréð.

Í fyrsta sæti var Dalbraut 9, Dalvík. Eigendur: Soffía Kristín Höskuldsdóttir og Bóas Ævarsson.

Mat dómnefndar:
Einstaklega vel vandað til verks og mikil natni við gluggaseríur. Rútan á húsinu, virkilega flott og frumleg. Mikið og fallega skreytt í skoti við innganginn. Skemmtilegt og bjartsýnt greni með seríu á jörðinni við húsið. Stílhreint, frumlegt og skemmtilegt í heildina.

Forsíðumynd er af Dalbraut 9.

Sjá nánar í máli og myndum.