
Um bókina Tímabil
Ný ljóðabók er á leiðinni á markaðinn og ber hún nafnið Tímabil. Tímabil er frumraun höfundarins, Snævars Arnar á bókamarkaðinum. Snævar hefur skrifað ljóð um árabil og hefur nú safnað saman 65 ljóðum og textum saman í eina bók. Ljóðin eru mörg hver á ansi persónulegum nótum og fjalla um mótandi einstaklinga í lífi höfundarins ásamt þeim ýmsu áskorunum sem fylgja hversdagslífinu. Ferðalag um nostalgíu og notalegheit æskunnar ásamt uppgjöri við erfiðari tíma og áskoranir lita blaðsíður bókarinnar.
Titillinn er sóttur í innblástur bókarinnar sem er ferð höfundar til yngri sjálfs og köfun í hafsjó minninga. Á því ferðalagi sótti höfundur mikinn innblástur til leiksýningarinnar “Í fylgd með fullorðnum” eftir Pétur Guðjónsson, leiksýningu þar sem aðalpersóna sýningarinnar fer í gegnum svipað ferli. Höfundur var byrjaður að safna saman nokkrum ljóðum en hugmyndin fæddist á tæknisvölunum á Melum í Hörgárdal við ljósaborðið.
Útgáfu bókarinnar er fagnað annars vegar með listasýningu í Gallerí Anddyri í Bergi sem opnar formlega laugardaginn 9. ágúst og hinsvegar tónleikum sem haldnir verða kl: 20:00 sama dag. Listasýningin inniheldur unnar ljósmyndir sem tengjast ljóðum bókarinnar og ljóðaupplestur sem verður á rafrænu formi á meðan sýningunni stendur. Þema tónleikana verður í anda bókarinnar og verða frumflutt lög eftir Snævar Örn í hátíðarsalnum í Bergi.

Myndir/aðsendar