Útgefnum bókum heldur áfram að fjölga samkvæmt fjölda skráðra titla í Bókatíðindum ársins 2021. Um er að ræða umtalsverða fjölgun frá því í fyrra en skýrist hún meðal annars af aukinni útgáfu á hljóð- og rafbókum, ungmennabókum og þýddum skáldverkum og fræðibókum.
„Opinber stuðningur við útgáfu bóka hefur aukið úrvalið fyrir lesendur á öllum aldri og hlustendur hljóðbóka. Þessi stuðningur er liður í fjölþættum aðgerðum stjórnvalda til þess að efla íslenskuna og bæta læsi, í því höfum við allt að vinna,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Alls hafa 361,4 milljónir kr. verið greiddar út í styrki til útgáfu það sem af er ári vegna 703 verka. Lög um stuðning við útgáfu bóka á íslensku tóku gildi 1. janúar 2019 og samkvæmt þeim eiga útgefendur rétt á endurgreiðslu á 25% hluta kostnaðar vegna bóka, að uppfylltum vissum skilyrðum.
Prentuðum bókatitlum fjölgar lítillega milli ára en merkja má mikla fjölgun í útgáfu á raf- og hljóðbókum. Fram kemur í nýlegri könnun Miðstöðvar íslenskra bókmennta að hlustun á hljóðbækur sé áþekk og hún var í fyrra en hún jókst verulega árið 2019. Þar kemur fram að 78% svarenda hafi lesið bók á síðustu 12 mánuðum, en um 46% hafi hlustað á hljóðbækur og um 31% lesið rafbækur.
„Þetta er ánægjuleg tölfræði sem sýnir okkur svart á hvítu hvernig aðgerðir stjórnvalda um að efla bókaútgáfu á íslensku hafa skilað eftirtektarverðum árangri. En góðu tíðindin eru ekki aðeins að úrvalið og fjölbreytnin hefur aukist heldur er efnið nú einnig aðgengilegt á fleiri útgáfuformum, sem bókaunnendur taka fagnandi. Við stöndum með stolti undir því að kalla okkur bókaþjóð!“ segir Heiðar Ingi Svansson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda.
Athuga ber að Bókatíðindi eru ekki tæmandi yfirlit um íslenska útgáfu því ekki eru allar bækur skráðar þar. Í þeirri tölfræði er ekki gerður greinarmunur á frum- og endurútgáfum bóka.
Nánari upplýsingar um styrki vegna útgáfu bóka á íslensku og endurgreiðsluferlið á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis.