Fréttaritar Trölla.is, þau hjónin Kristín Sigurjónsdóttir og Gunnar Smári Helgason dvelja hluta úr ári á Gran Canaria. Þau búa í helli sem þau eiga í Angostura gljúfri ásamt 25.000 fm landi í fjöllunum fyrir ofan bæinn Vecindario.

Í dag er tuttugasti og fjórði dagur í útgöngubanni hjá okkur hjónum hér á Kanarí og verður bannið að minnsta kosti í gildi til 26 apríl.

Í dag eru 26 dagar frá því ég hef séð aðra mannveru en Gunnar Smára og er enn sem komið er við ágætis geðheilsu.

Vikan hefur verið frekar tíðindalítil og allt gengið sinn vanagang eftir stressið með rafmagnið.

Veðrið er að hlýna og finn ég mun á deginum eftir að klukkunni var flýtt, enda geri ég í því að vera B týpa þessa dagana.

Gunnar er að vinna við húsbygginguna, forritun og hljóðmix jöfnum höndum. Saman vinnum við í fréttagerð við vefsíðuna okkar Trölli.is og er sú vinna að skila góðum árangri.

Aldrei hefur verið farið eins mikið inn á vefsíðuna frá upphafi né lesendur fleiri. Vefsíðan verður tveggja ára um mánaðamótin og segjum við frá henni í myndbandinu.

Eins sýnum við frá umhverfinu handan úr gljúfrinu og glæsilegu hellaumhverfi hjá vinum okkar og nágrönnum.