Síldarárin 1867-1969“

Ég keypti bókina – Ég fletti bókinni nokkuð á hraðbergi strax er ég kom heim eftir bókarkynninguna í Gránu Síldarminjasafnsins þann 7. desember 2019 þar sem ég mætti, og naut „afsláttar,“ það er; fékk bókina á kynningarverði.

Í byrjun las ég þó hægar, þar sem ég rakst á ýmislegt sem ég hafði ekki lesið um áður, en er á leið fór ég að kannast við efnið, þar sem ég hefi lesið mikið um Síldarárin, raunar tekið þátt í þeim og skrifað, allt frá barnsaldri, enda Siglfirðingur fram í ættir og fylgist vel með sögunni enn, og les allt sem ég kemst yfir í sambandi við sögu þessa tímabils.

Svo fór ég að finna lesmál sem ég kannaðist mjög vel við og mundi eftir að hafa lesið nýlega, svo ég fletti upp á líklegum stað á netinu þar sem mig grunaði að hafa lesið efnið fyrir stuttu.
Ég fann þessar upplýsingar á siglo.is – Greinar eftir Jón Björgvinsson, sem hann hafði þýtt frá Sænsku og skrifað á vefinn.
Mikið orðrétt en annað aðeins breytt. Í mínum huga var ekki um að villast, þetta og þýðingu átti Nonni Björgvins vinur minn. En heimilda var ekki getið þarna í bókinni.

Ég fór að fletta hraðar og flest kannaðist ég við, nema sumar af frásögnum nafngreindra einstaklinga.

En svo tók ég mér hvíld og hefi ekki opnað bókina fyrr en nú eftir að ég las greinar Nonna Björgvins, og Hörpu Hreinsdóttur í morgun 26. janúar 2020, að ég sótti bókina og fór að pæla í henni.

Með ólíkindum, vil ég telja vanhæfni höfundar á skrifum alltof margra svo tugum skiftir, textar sem meint lýsing með jafnmörgum ljósmyndum og raun ber vitni í bókinni. Sumt langt frá hinu raunverulega, raunar sumt algjört bull og rangfærsla vegna vanþekkingar höfundar á myndefninu.

Svo má bæta við að hann getur ekki um hver ljósmyndarinn er, þó svo að þeir séu í meirihluta þekktir og skráðir hjá til dæmis Ljósmyndasafni Siglufjarðar – Það er ekki eðlilegt að fara þurfi í margar síður „heimilda“ til að leita með stækkunargleri að því sem ekki er einu sinni skráð þar, í hina meintu heimildaskrá aftast í bókinni.

Svo úir og grúir af efni í bókinni sem á ekkert skylt við síldveiðar og vinnslu eða annað síldinni tilheyrandi. En öðru mikilvægara sleppt.

Sem dæmi: Síldarflutningarnir, sem hófust 1947 með Faxa- og Hvalfjarðarsíldinni, aðeins örstuttar klausur (klippt og límt) sem margar hverjar segja lítið sem ekkert – Og svo þegar fyrstu alvöru síldarflutningarnir á milli verstöðva með „fraktskipum.“ Flutningar sem hófust í stórum stíl fyrir Norður og Austurlandi á árunum 1961 til 1965 –

Fyrsta sinn sem síld er dælt úr veiðiskipi á miðunum, og flutt síðan til Bolungarvíkur 1965 að frumkvæði Einars Guðfinnssonar Bolungarvík. Aðeins örfá orð um það framfaraspor í bókinni.
Svo allir síldarflutningarnir árin eftir. Sáralítið kemur þar fram, aðeins smá fréttaklausur (klippt og límt) eftir misjafnlega vel upplýsta blaðamenn.

Haförninn keyptur, Nordangard leigður af SR, og svo Síldin sem flutti síldina suður frá miðunum. Það tímabil stóð frá árinu 1966 til 1969 er síldin hvarf.
Og svo var einnig síld söltuð um borð í Haferninum fyrir Sigló Síld, og raunar fleiri skipum, lauslega á eitt þeirra minnst. (klippt og límt)
Það er þó virðingarvert að höfundi hafi tekist að grafa upp Dagbókina hans Torfa Halldórssonar skipstjóra þegar hann skrapp með Síldinni á miðin. Hann var einnig einn túr um borð í Haferninum, en sonur hans Sverrir Torfason bryti var þar skráður um borð.

Minn ritdómur um þessa bók má með stuttu máli segja:
Mikið magn upplýsinga fyrri tíma, sem ég er ekki fær um að staðfesta að séu réttar eða rangar, en væntanlega skrifaðar eftir bestu vitund. Mikil vinna hefur farið í að afla þeirra gagna.
Seinnihlutinn, sem auðvelt er að meta vegna þess að margir hafa skrifað í prentuð gögn gefin út á Íslandi (timarit.is) og auðvelt að álykta rétt frá sagt. En það er eins og með biblíuna, sagan breytist eftir því sem hún er oftar sögð og endurskrifuð.
Höfundur hefur fljótlega að mínu mati komist í tímaþröng og farið í auknu mæli að klippa og líma efni annarra, stundum jafnvel rangar upplýsingar.

Höfundur gefur sér lítinn tíma til að ræða við núlifandi einstaklinga, sem bæði muna og hafa tekið þátt í Síldarævintýrinu langt aftur í síðustu öld, heldur kosið að miðla því sem aðrir hafa skrifað.

Ljósmyndum mörgum hverjum virðast hafa verið kastað blindandi inn á sumar síðurnar, það er erfitt eða alls ekki hægt að finna skýringu á ljósmyndinni. Svo eins og ofar segir, ljósmyndara ekki getið með myndatexta. Það er sennilega (?) tímaþröngin fyrrnefnda.

Þetta efni sem er í bókinni hefði átt að gefa út í amk. þrem bindum og taka út óviðkomandi efni um síldina. Og klára að segja söguna svo hún komi framtíðinni að gagni. Nóg er af slíku í minningu okkar sem enn lifum og tókum þátt í ævintýrinu, þeir eru margir á Siglufirði, og væntanlega einnig í flestum byggðarlögum sem tóku þátt í ævintýrinu.

Steingrímur Kristinsson áhugljósmyndari og gagnasafnari í yfir 65 ár
210234-4549

Nokkrar samantektir mínar hér neðar, heimildir sem hefðu átt heima í góðu ritverki:





1947
Síldarflutningar:
Faxasíldin var að mestu flutt með flutningaskipum til bræðslu hjá SR 46 á Siglufirði
(heimild: Síldarannáll Hreins Ragnarssonar)
Hvalfjarðarsíldin, veiðar, löndun í Reykjavík, geymsla síldarinnar þar og síðar flutningar til Siglufjarðar. Nokkuð sem í raun væri efni í heila bók (ekki þó klippt og límt eingöngu)
Þá má ekki gleyma Hvalfjarðarsíldinni, sem einnig var flutt norður til bræðslu með stórum erlendum fraktskipum 2-3 sem voru um 10 þúsund tonn að stærð, svokölluðum Liberty skipum sem voru frá Bandaríkjunum. (heimild: Steingrímur Kristinsson og netið)



1961
Þá hófust miklir flutningar á síld með „fraktskipum“ flest um og yfir 1.500 tonn að stærð. Sú síld kom frá SR á Seyðisfirði, en síldinni hafði áður verið komið fyrir í stórum tönkum verksmiðjunnar og síðan látin renna um borð í skipin sem fluttu svo farminn til SR á Siglufirði þar sem síldin fór til bræðslu. Þessir flutningar voru með mörgum skipum, aðallega Norskum frá sumrinu 1961 til sumars 1965 (heimild Steingrímur Kristinsson)
Þá gerði Síldarverksmiðjan Rauðka tilraunir með flutningaskip árið 1965, aðeins stærri og þá með dælubúnaði. (heimild Steingrímur Kristinsson)


1965
Frumkvöðullinn og útgerðarmaðurinn Einar Guðfinnsson Bolungarvík tók á leigu tankskipið Þyril árið 1965 og kom þar fyrir um borð dælubúnaði. Hann sendi síðan skipið á síldarmiðin, þar sem síldinni var dælt úr veiðiskipum um borð í Þyril og síðan flutt til Bolungarvíkur. (heimild Steingrímur Kristinsson, haft eftir þáverandi skipstjóra og 1. stýrimanni) Sama ár keyptu Síldarverksmiðjur ríkisins Haförninn.



1966
Síldar og olíuflutningaskipið Haförninn (áður  Lønn) kom svo á síldarmiðin við Rauðatorg og losaði síðan fyrsta farminn á Seyðisfirði, þar sem ný löndunarbryggja á Siglufirði, var á þeim tíma ekki tilbúinn. Haförninn kom svo síðar með fyrsta farm sinn til heimahafnar, Siglufjarðar þann 18. Ágúst 1966. Haförninn flutti síld frá síldarmiðunum allt norður við jan Majen og Svalbarða, eða allt til ársins 1969 er síldin hvarf á þessum miðum. Skipið var síðan selt fyr slikk árið 1970 – Síðast að ég veit var skipið með fullfermi af olíu á Miðjarðarhafi á leið frá Ítalíu, þangað sem skipið hafði verið selt. Það var um sumarið 1979 – Yfir vetrartímann var Haförninn í siglingum á milli erlendra hafna með olíu. Svo lýsi héðan og olíur heim til baka.
(heimild Steingrímur Kristinsson)

Á forsíðumynd sést Haförninn leggjast við nýja löndunarbryggu á Siglufirði, í fysta sinn í heimahöfn þann 18. ágúst 1966. Mynd: Steingrímur Kristinsson.