Vegagerðin semur við COWI Ísland um hönnun Fljótaganga

Yfirlitsmynd verkefnis í heild á frumdragastigi

Vegagerðin og COWI Ísland undirrituðu í gær, miðvikudaginn 28. janúar, samning um for- og verkhönnun Fljótaganga, vegagerðar á Siglufjarðarvegi milli Stafár í Fljótum og tengingu við núverandi Siglufjarðarveg í botni Siglufjarðar. For- og verkhönnun skal að fullu lokið í nóvember 2026, en þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Verkið felur m.a. í sér for- og verkhönnun jarðganga, vega, tveggja brúa, hringtorgs, áningarstaðar og undirganga fyrir gangandi, hjólandi og ríðandi vegfarendur. Jafnframt mun COWI annast gerð verklýsinga fyrir útboð verkframkvæmda og vinna skýrslu fyrir mat á umhverfisáhrifum. Aðlögun núverandi tenginga og heimreiða að nýjum vegi er einnig hluti af verkefninu.

Í kílómetrum talið er um að ræða 5,3 km löng jarðgöng og samtals um 19 km vegagerð utan ganga.

Upplýsingar um Fljótagöng:

Vegagerðin semur við COWI Ísland um hönnun Fljótaganga

Fljótagöng undirbúningur for-og-verkhönnunar

Á heimasíðu Vegarðarinnar kemur fram að Fljótagöng eiga að liggja milli Nautadals í Fljótum og Hólsdals. Með framkvæmdinni styttist leiðin milli Fljóta og Ólafsfjarðar um u.þ.b. 14 km og leiðin milli Fljóta og Siglufjarðar um 10 km. Jarðgöngin og vegurinn koma í stað Strákaganga og vegar um Almenninga.

Árið 2019 var unnin frumkönnun á jarðgangakostum. Jarðgrunnsrannsóknir við munnasvæði í fóru fram árin 2024 og 2025. Fleiri rannsóknir voru gerðar á árinu 2025.

Framkvæmdin er matsskyld samkvæmt lögum.

Útboðið var auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu og bárust tilboð frá þremur ráðgjafafyrirtækjum: Efla hf., COWI Íslandi og Norconsult ehf.

Að loknu mati á hæfni og verðtilboðum var COWI valið til verksins. Áætlaður kostnaður Vegagerðarinnar var 272.000.000 kr. og var tilboð COWI það eina undir kostnaðaráætlun, eða 215.615.000 kr.

Helstu verkefni í for- og verkhönnun:

  • Ný jarðgöng um 5,3 km löng milli Nautadals í Fljótum og Hólsdals í Siglufirði
  • Nýr vegur frá gangamunna í Hólsdal að núverandi Siglufjarðarvegi, um 2,7 km langur.
  • Nýr 3,0 km langur vegur frá Ketilási að Fljótagöngum.
  • Nýr vegur um Fljót frá Stafá að Ketilási, um 13 km.
  • Ný brú yfir Flókadalsá, u.þ.b. 45 m löng.
  • Tvö ný vegamót við Ketilás. Annars vegar við núverandi Siglufjarðarveg (76) sem liggur norður eftir Miklavatni og hins vegar við Ólafsfjarðarveg (82) sem verður færður austur fyrir Ketilás á um 700 m löngum kafla.
  • Ný brú yfir Brúnastaðaá, u.þ.b. 14 m löng.
  • Undirgöng í Hólsdal fyrir gangandi, hjólandi og ríðandi umferð.
  • Hringtorg við Siglufjörð og aðlögun að aðliggjandi vegum.

Myndir: vegagerdin.is